Hafnarsamlag Norðurlands stendur að verkefninu í samvinnu við Akureyrarbæ og Arkítektafélag Íslands.
Meginmarkmið verkefnisins er að gera tillögu að lifandi hafnarhverfi með fjölbreyttri starfsemi á Torfunefi í hjarta Akureyrar, að því er fram kemur á vef Miðstöðvar hönnunar og arkítektúrs.
Leitað er eftir tillögu þar sem byggingar og almannarými hafa aðdráttarafli fyrir bæjarbúa, ferðamenn og rekstraaðila á ýmsum sviðum eins og ferðaþjónustu, veitingarkestur, verslanir, sýningarrými, vinnustofur og skrifstofurými svo dæmi séu nefnd
Þá er tekið fram að útirými mættu gjarnan gefa möguleika á viðburðum, svo sem útitónleikum, útimarkaði eða öðrum smærri uppákomum.

Í lýsingu hugmyndasamkeppninnar segir að vegna mikillar fjölgunar minni skemmtiferðaskipa hafi undirbúningur að endurbyggingu Torfunefsbryggju verið hafinn. Með stækkun þessara hafnarmannvirka verði til dýrmætt land við miðbæ Akureyrar, það land sem hugmyndasamkeppnin nær til.
Þar er þess einnig getið að Torfunefsbryggja leiki lítið hlutverk í Tinnabókinni Dularfullu stjörnunni, þar sem Tinni og Kolbeinn Kafteinn heimsækja Akureyri og skip þeirra leggst við umrædda bryggju. Áður hefur verið fjallað um þessa tengingu á Vísi.
Stefnt að uppbyggingu miðbæjarins
Nánari upplýsingar um hugmyndasamkeppnina má nálgast hér en gert er ráð fyrir að dómnefnd kynni niðurstöðu þann 27. apríl næstkomandi. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist í lok árs 2023 eða 2024.
Ljóst er að miðbær Akureyrar mun taka stakkaskiptum næstu árin. Í desember 2020 voru tillögur kynntar að töluverðri uppbyggingu í miðbænum, þar sem byggja á verslunar- og íbúðarhúsnæði á stóru bílastæði við Skipagötu.