Skoðun

Áramótaheit og orkuskiptin

Halla Hrund Logadóttir skrifar

Það er janúar. Svellkaldur niðdimmur mánuður sem við gjarnan nýtum til að íhuga framtíðina og hvert við viljum fara. Setjum okkur markmið. Áramótaheit. Og vinnum svo markvisst að því að ná þeim. Að minnsta kosti á fyrstu dögum ársins. Yfirleitt eru ýmis ljón í veginum. Hindranir sem þarf að yfirstíga til að komast í mark.

Nýverið setti ríkisstjórnin orkuskiptin á dagskrá í nýjum stjórnarsáttmála. Eins konar áramótaheit um að Ísland nái loftslagsskuldbindingum og verði fyrsta „olíulausa“ landið. Það er mikilvægt og gjöfult markmið sem getur fært Íslandi mörg tækifæri. Það gerir hagkerfið loftslagsvænna. Það sparar gjaldeyristekjur. Það getur styrkt nýsköpun og tæknivæðingu. En eins og með önnur áramótaheiti þá eru ljónin á ferli og hindranir til staðar.

Ein af þeim stærstu áskorunum sem við stöndum frammi fyrir er sú að það er ekki öruggt að laus orka, hvort sem er úr nýjum eða eldri virkjunum, rati í orkuskiptin innanlands. Í regluverki orkugeirans er markmiðið að hæstbjóðandi kaupi orkuna. Og hæstbjóðandi, þegar eftirspurn er mikil, er ekki endilega rafbílaeigandi í Kópavogi, gróðurhús á Suðurlandi eða fiskimjölsverksmiðja sem hefur fjárfest í að rafvæða innviði sína. Hæstbjóðandi orkunnar er heldur ekki endilega samfélög á köldum svæðum, s.s. í Bolungarvík og á Snæfellsnesi, sem nota olíu sem varaafl, ef þau fá ekki græna orku.

Það er semsagt ekki gefið að meiri orkuframleiðsla eða auknar fjárfestingar í flutningskerfinu skili sér beint í árangur í orkuskiptum og gefi tækifæri til að ná áramótaheitinu. Til þess þarf margt að ávinnast. Kortleggja þarf orkumarkaðinn sjálfan og skapa lagaumgjörð svo að orkan rati í orkuskiptin og árangur náist. Ef það er markmiðið.

Við eigum verðmæt en takmörkuð gæði. Orkan okkar er endurnýjanleg en ekki óendanleg. Betri útfærsla laga og regluverks er grunnurinn að því að hljóð og mynd fari saman; orkan og orkuskiptin, eins og oft er sagt í umræðunni. Þannig eigum við möguleika á að sigra ljónin í veginum. Það er kjarni málsins.

Höfundur er Orkumálastjóri og aðjúnkt við Harvard háskóla.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×