Slíkum samningum, sem eru einnig nefndir trúnaðarsamningar, er ætlað að koma í veg fyrir að þolendur slíkra brota greini frá þeim opinberlega.
Haraldur tilkynnir þetta í færslu á Twitter-síðu sinni í dag og hvetur fólk í þeirri aðstöðu til að hafa samband við sig ef það hefur áhuga á að vita hvernig það geti losnað undan slíkum samningi.
„Ég get ekki lofað neinu en kannski getum við fundið lausn,“ skrifar Haraldur og bendir einstaklingum á að senda sér einkaskilaboð á Twitter.
Hafðu samband (sendu DM) ef að þú ert með þöggunarsamning útaf kynferðisbroti og vilt vita hvernig þú losar þig úr honum.
— Halli (@iamharaldur) January 19, 2022
Ég get ekki lofað neinu en kannski getum við fundið lausn.
Boðist til að greiða miskabætur
Haraldur komst í fréttir í júlí síðastliðnum þegar hann bauðst til þess að greiða miskabætur sem tónlistarmaðurinn Ingólfur Þórarinsson, betur þekktur sem Ingó Veðurguð, hafi krafið einstaklinga um vegna meintra ærumeiðinga sem tengdust ásökunum um kynferðisbrot. Þá lýsti Haraldur því einnig yfir að hann ætlaði að greiða lögfræðikostnað þeirra.
Haraldur seldi hönnunarfyrirtæki sitt til Twitter í byrjun seinasta árs fyrir háar fjárhæðir. Athygli vakti þegar hann greindi frá því að hann hafi flutt lögheimili sitt til Íslands áður en gengið var frá sölunni í þeim tilgangi að greiða skatta af henni hér á landi. Fram að því hafði Haraldur verið búsettur í Bandaríkjunum ásamt fjölskyldu sinni til fjölda ára.
Haraldur var hvatamaður að átakinu Römpum upp Reykjavík sem er ætlað að bæta aðgengismál í Reykjavík og víðar á landinu. Hann fékk heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu á nýársdag fyrir störf á sviði nýsköpunar og samfélagsmála.