Ardian og Míla, dótturfélag Símans hf., upplýstu Samkeppniseftirlitið fyrst um viðskiptin með bréfi 1. nóvember síðastliðinn en þá töldu samrunaaðilarnir að samruninn væri ekki tilkynningaskyldur vegna lítillar starfsemi Ardian á Íslandi. Þetta segir í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.
Um miðjan desember síðastliðinn upplýstu aðilarnir svo um að velta Adrian og dótturfélaga væri meiri hérlendis en áður var talið og væri samruninn því tilkynningarskyldur en Samkeppniseftirlitið hafði kallað eftir tilkynningu vegna samrunans í nóvember. Að mati eftirlitsins var tilefni til þess að óska eftir upplýsingum um samrunaskrá vegna kaupanna og taka þau til skoðunar.
Samkeppniseftirlitið mun nú fara yfir tilkynninguna og meta hvort hún sé fullnægjandi og innihaldi allar nauðsynlegar upplýsingar um samrunann. Tímafrestir til rannsóknar á samrunanum byrja ekki að líða fyrr en fullnægjandi tilkynning hefur borist og verður því staða málsins verða birt fyrst á upplýsingasíðu um stöðu samruna þegar tilkynningin hefur verið metin fullnægjandi.