Innlent

Um­boðs­maður barna varar við villandi upp­lýsingum

Árni Sæberg skrifar
Salvör Nordal er umboðsmaður barna.
Salvör Nordal er umboðsmaður barna. Vísir

Umboðsmaður barna stendur ekki að baki upplýsingablaði sem dreift hefur verið í heimahús, þó það sé gefið í skyn á blaðinu.

Í tilkynningu á vef umboðsmanns barna segir að upplýsingablað og vefsíða sem sett eru fram í nafni „Bólusetningaráðs“ séu hvorki á vegum embættisins né annarra opinberra stofnana.

„Þá skal tekið fram að þær upplýsingar sem þar eru settar fram eru villandi, enda verið að gefa í skyn að embætti umboðsmanns barna standi að baki, sem er alrangt,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að hvorki sé vitað hver standi að baki dreifingarinnar né hver ábyrgðarmaður vefsíðunnar er.

„Að mati umboðsmanns barna er það grafalvarlegt að verið sé að dreifa villandi og röngum upplýsingum í skjóli nafnleyndar sem varða jafn mikilvæg og viðkvæm málefni og um ræðir,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×