Frá og með 1. febrúar næstkomandi verða bólusetningarvottorð vegna grunnbólusetningar aðeins tekin gild í 270 daga, eða um níu mánuði, frá því að grunnbólusetningu lauk. Á það við um einstaklinga sem hafa fengið eina sprautu af Janssen eða tvær sprautur af öðrum bóluefnum.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef heilbrigðisráðuneytisins en um er að ræða ákvörðum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Fram að þessu hefur ekki verið gerð krafa um gildistíma bólusetningarvottorða á landamærum Íslands og annarra landa innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES).
Miðað er við tímann frá þeim degi sem seinni skammtur grunnbólusetningarinnar var gefinn. „Þetta þýðir að bólusetningarvottorð þess einstaklings sem lauk grunnbólusetningu 15. júní 2021 fellur úr gildi 12. mars næstkomandi,“ segir í tilkynningunni.
Hafi fólk fengið þriðju sprautuna eða örvunarskammt eftir bólusetningu með bóluefni Janssen á gildistíminn ekki lengur við og gilda þau bólusetningarvottorð ótímabundið á landamærum innan EES.
Landlæknir greindi sömuleiðis frá því í síðustu viku að frá og með mánaðamótum verði útgáfu bólusetningarvottorða fyrir þá sem hafa fengið staka bólusetningu með bóluefni Janssen hætt. Er það gert á þeim grundvelli að ein bólusetning með efninu teljist ófullnægjandi til að draga verulega úr smithættu eða alvarlegum veikindum.