Greint var frá því í gær að enginn hefði þurft á gjörgæslu eftir örvunarbólusetningu, að því er segir í niðurstöðum rannsóknarhóps Landspítala.
Í frétt Morgunblaðsins segir hins vegar að tveir einstaklingar hafi þurft að leggjast inn á gjörgæslu eftir örvunarskammt. Hildur Helgadóttir, verkefnastjóri farsóttarnefndar á Landspítala staðfestir það í samtali við Vísi.
Hún segir annan þeirra hafa lagst inn í nóvember, einungis einum degi eftir að hafa þegið örvunarskammt. Þá hafi hinn lagst inn þann 1. desember en verið örvunarbólusettur þann 23. nóvember. Almennt er talið að örvunarskammtur verði ekki virkur fyrr en fjórtán dögum eftir bólusetningu. Til að mynda taka reglur um sóttkví þríbólusettra ekki gildi fyrr en að fjórtán dögum liðnum.
Niðurstaða rannsóknarhóps standi
Martin Ingi Sigurðsson, prófessor og yfirlæknir í svæfinga- og gjörgæslulækningum á Landspítala, segir Covid-19 rannsóknarhóp Landspítala hafa farið yfir gögn sín í dag í kjölfar ábendinga um að tveir hafi lagst inn eftir örvunarbólusetningu.
Eftir yfirferð gagna sé niðurstaða hópsins sú sama og í gær, að enginn með virka örvunarbólusetningu hafi þurft að leggjast inn á gjörgæslu.
Hann segir hópinn munu gera grein fyrir því ef nánari rannsóknir bendi til annarar niðurstöðu og að markmið hópsins sé að rannsaka hver áhrif bólusetninga séu á innlagnartíðni.