Erlent

Lögreglan rannsakar Borisar-boðin

Samúel Karl Ólason skrifar
Boris Johnson, forsætisráðherra, hefur verið undir miklum þrýstingi vegna samkvæma sem haldin voru innan ríkisstjórnar hans.
Boris Johnson, forsætisráðherra, hefur verið undir miklum þrýstingi vegna samkvæma sem haldin voru innan ríkisstjórnar hans. EPA/ANDY RAIN

Lögreglan í London hefur hafið rannsókn á samkvæmum sem haldin voru í Downingstræti tíu á tímum samkomutakmarkana í Bretlandi. Verið er að rannsaka hvort brot voru framin á sóttvarnalögum en uppljóstranir um samkvæmi hafa valdið Boris Johnson, forsætisráðherra, miklum vandræðum.

Rannsókn lögreglunnar snýr að mögulegum brotum sem framin voru af meðlimum ríkisstjórnarinnar á undanförnum tveimur árum.

Cressida Dick, yfirmaður lögreglunnar, opinberaði rannsóknina í morgun. Hún sagði að engum yrði hlíft við framkvæmd hennar og hét því að opinbera mikilvægar vendingar í rannsókninni, samkvæmt frétt BBC.

Dick sagði nokkra viðburði til rannsóknar og var rannsóknin hafin í kjölfar þess að lögreglunni bárust upplýsingar frá embættismönnum sem hafa verið með samkvæmi í Downingstræti til skoðunar, samkvæmt frétt Sky News.

Ríkisstjórn Borisar hefur verið undir miklum þrýstingi undanfarna daga í kjölfar þess að sagt hefur verið frá samkvæmum sem haldin voru í húsnæði forsætisráðherrans á sama tíma og strangar samkomutakmarkanir voru gildar í Bretlandi.

Eitt samkvæmið fór fram í mái 2020 og hefur Johnson einnig verið sakaður um að ljúga að þinginu varðandi hvað hann vissi um samkvæmið.

Þá kom nýverið í ljós að í júní var haldið óvænt afmælisveisla fyrir forsætisráðherrann í Downingstræti.

Að­eins níu dögum fyrr hafði Johnson biðlað til al­mennings að forðast sam­komur innan­dyra eftir fremsta megni. Sam­kvæmt þá­verandi reglum máttu að­eins sex manns safnast saman utan­dyra og tveir innan­dyra.

Sjá einnig: Óvænt afmælisveisla í Downingstræti enn eitt höggið fyrir Johnson

Afmælisveislan sem haldin var fyrir Johnson þykir sérstaklega óheppileg, ef svo má að orði komast, vegna tísts sem Johnson birti í mars 2020. Þar hrósaði hann sjö ára stúlku fyrir að fresta hennar afmælisveislu.

Hún hafði sent bréf til forsætisráðuneytisins þar sem hún sagðist halda sig heima því Johnson hefði beðið hana um það.


Tengdar fréttir

Ríkisstjórnin sökuð um að hóta þingmönnum og jafnvel kúga þá

Þingmenn Íhaldsflokks Englands, sem vilja velta Boris Johnson, forsætisráðherra, úr sessi sem leiðtogi flokksins, hafa orðið fyrir hótunum frá meðlimum úr ríkisstjórn Bretlands. Þetta segir einn þingmaður flokksins og ráðleggur hann flokksbræðrum sínum og systrum sem hafa orðið fyrir kúgunum að leita til lögreglunnar.

Samflokksmenn Johnson sagðir leggja drög að hallarbyltingu

Þingmenn breska Íhaldsflokksins eru sagðir leggja drög að því að koma forsætisráðherranum Boris Johnson frá. Framganga hans síðustu vikur og mánuði hefur grafið verulega undan trúverðugleika hans og samflokksmenn hans eru sagðir hafa fengið sig fullsadda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×