Einar Hermannsson sagði í gær af sér sem formaður SÁÁ eftir að Stundin greindi frá því að hann hefði svarað auglýsingu á netinu þar sem í boði var kynlíf gegn greiðslu. Í dag birti Stundin skjáskot af samskiptum Einars við konuna þar sem sést að hann keypti vændi af henni en konan er sjálf meðal skjólstæðinga samtakanna.
Vissu ekki af málinu
Í umfjöllun Stundarinnar segir að Embætti landlæknis hafi verið upplýst um málið árið 2020. Er haft eftir ónefndum heilbrigðisstarfsmanni að hann hafi haft samband við embættið. Hann segist í samtali við Stundina hafa fengið þar góð svör um í hvaða farveg málið færi, hvaða ferli færi í gang hjá embættinu.
„Stuttu seinna hætti skjólstæðingur minn við að kæra viðkomandi mann þannig að ég fór ekki lengra með málið hjá landlækni,“ segir heilbrigðisstarfsmaðurinn í samtali við Stundina. Málið hafi því aldrei verið tilkynnt með formlegum hætti þótt leitað hafi verið til embættisins.
Embætti landlæknis kannast ekki við málið.
„Nei, landlæknir og embætti landlæknis kannast ekki við að hafa fengið neinar upplýsingar um málið, hvorki með formlegum né óformlegum hætti. Embættið frétti af málinu í gær. Embætti landlæknis lýsir furðu sinni á að vera dregið inn í þetta mál í umfjöllun Stundarinnar. Embættið hefur gert athugasemd við Stundina og krafið hana um frekari upplýsingar,“ segir í skriflegu svari Kjartans Hreins Njálssonar, aðstoðarmanns Landlæknis, við fyrirspurn fréttastofu.

Fréttastofa spurðist einnig fyrir um það hvaða valdheimildir embættið hefði til þess að bregðast við svona tilkynningum.
„Hér er mikilvægt að hafa í huga lögbundið hlutverk embættis landlæknis, það er, að hafa eftirlit með heilbrigðisstarfsmönnum og heilbrigðisstofnunum. Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandanna (SÁÁ) er ekki heilbrigðisstofnun. Hins vegar er Vogur, sjúkrahús SÁÁ, heilbrigðisstofnun. Embættið hefur hvorki umboð né hlutverk til að skoða starfsemi eða stjórnendur samtaka eða stofnana sem ekki falla undir eftirlitsskyldu þess,“ segir í skriflegu svari Kjartans Hreins.
Fréttin hefur verið uppfærð.