Landfyllingin yrði annar áfangi í áformum meirihlutans í borginni um hinn svokallaða Nýja-Skerjafjörð, þar sem á að koma fyrir 1.300 nýjum íbúðum.
Hluti þeirra á að rísa á landfyllingunni en sú framkvæmd er nú í skipulags- og umsagnaferli.

Náttúruverndarsinnar eru ekki hrifnir af þessu enda segir í frummatsskýrslu um framkvæmdina að hún muni hafa neikvæð áhrif á allt lífkerfi svæðisins.
„Mér finnst alveg galið að ætla að fylla upp í náttúrulega fjöru sem nýtur mikillar verndar fyrir í raun og veru lítinn hluta íbúða í þessu nýja hverfi,“ segir Elín Björk Jónasdóttir, formaður Reykjavíkurfélags Vinstri grænna.
Á þessari mynd sést grálitað hvar landfyllingin á að koma við hlið Reykjavíkurflugvallar:

Ströndin er ein af fáum á höfuðborgarsvæðinu sem eru ósnert og er lífríki hennar í raun einstakt. Þar finnst svokallað klóþangsklungur, sem gerir svæðið að ríkulli matarkistu fyrir fugla.
VG stendur alltaf með náttúrunni
En hvað finnst Elínu um að hennar flokkur sem stendur fyrir náttúruvernd sé í meirihluta sem talar fyrir framkvæmdinni?
„Ja, ég er auðvitað ekki í borginni sjálf en VG auðvitað stendur alltaf með náttúrunni. Það er bara einn borgarfulltrúi frá VG núna, við þurfum að bæta við okkur til að hafa meira að segja um þessi mál,“ segir Elín Björk.

„Ég held það sé bara mjög erfitt að halda þessu á lofti miðað við alla hina því það er auðvitað kannski bara ekki meirihluti fyrir náttúruvernd í núverandi meirihluta. Eða ég veit það ekki...“ heldur hún áfram.
Standa víða vörð um náttúruleg kerfi
Eini borgarfulltrúi Vinstri grænna segist hafa fullan skilning á þessum sjónarmiðum.
„Þetta eru stóru viðfangsefnin okkar, það eru loftslagsbreytingar af mannavöldum og þá þurfum við að standa vörð um náttúrukerfi svo sannarlega. Og það erum við að gera á mörgum öðrum stöðum í borginni,“ segir Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna.

Ef landfyllingin verður að raunveruleika verður þar reynt að koma á svipaðri strandlengju til að lífkerfið nái sér aftur með tíð og tíma.
„Og ég er sannfærð um að við getum látið þetta spila allt saman; náttúruvernd, umhverfismál, borg sem stækkar og sjálfbær hverfi,“ segir Líf, sem telur flokkinn sannarlega ekki hafa tapað gildum sínum í borginni. Hann hafi meðal annars staðið fyrir gríðarmiklum friðlýsingum á ýmsum ósnertum svæðum á síðustu misserum.