Erlent

Óttast um af­drif 39 eftir að smygl­bát hvolfdi við Flórída

Atli Ísleifsson skrifar
Sjómenn bentu strandgæslunni á að sést hafi til manns á skrokki skipsins.
Sjómenn bentu strandgæslunni á að sést hafi til manns á skrokki skipsins. US Coast Guard

Bandaríska strandgæslan leitar nú 39 manna eftir að bát með tugum manna innanborðs hvolfdi undan ströndum Flórída. Báturinn var á leið frá Bahamaeyjum og til Bandaríkjanna með tugi manna innanborðs sem talið er að hafi verið að reyna að smygla til Bandaríkjanna.

Bandarískum yfirvöldum barst tilkynning um málið í nótt frá sjómönnum sem sáu til manns á skrokki skips um sjötíu kílómetra frá hafnarborginni Fort Pierce. Maðurinn sagði að báturinn hafi lagt af stað frá Bimini á Bahmaeyjum á laugardag og lent í óveðri á hafi úti.

Í frétt BBC segir að talsmaður bandarískra yfirvalda telji að báturinn hafi verið í eigu manna sem stunda smygl á fólki sem er að reyna að komast ólöglega til Bandaríkjanna.

Maðurinn sem komst lífs af segir að enginn um borð hafi verið í björgunarvesti. Enn sem komið er hefur enginn farþega bátsins fundist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×