Handbolti

Þjálfari Dana: „Mjög svekktur að hafa tapað“

Sindri Sverrisson skrifar
Nikolaj Jacobsen nýtti tækifærið til að gefa nokkrum af bestu leikmönnum sínum hvíld í gær.
Nikolaj Jacobsen nýtti tækifærið til að gefa nokkrum af bestu leikmönnum sínum hvíld í gær. Getty/Uros Hocevar

„Við vildum allir saman vinna leikinn, á því leikur ekki nokkur vafi,“ sagði Nikolaj Jacobsen, þjálfari danska landsliðsins, svekktur eftir 30-29 tapið gegn Frakklandi á EM í handbolta í gær.

Tapið hafði í för með sér að Ísland komst ekki með Danmörku í undanúrslitin heldur þarf að spila við Noreg á morgun um 5. sæti.

Tapið hafði einnig í för með sér að Danmörk þarf að spila við ríkjandi Evrópumeistara Spánar í undanúrslitunum en Frakkland mætir Svíþjóð.

Danir voru fimm mörkum yfir gegn Frökkum þegar tólf mínútur voru eftir en glutruðu forskotinu niður hratt á lokakaflanum.

„Við klikkuðum á tveimur færum og þannig komust þeir á ferðina. Síðan gerðum við tvö heimskuleg mistök, þegar við vorum 27-22 yfir, og þannig gátu þeir skorað mörkin sín hratt.

Þetta skapaði svolítinn óróleika, þeir færðust í aukana og við féllum aðeins til baka. En ég er mjög svekktur að hafa tapað í dag því mér fannst við spila mjög flottan leik,“ sagði Jacobsen sem nýtti tækifærið, þar sem Danir máttu við því að tapa, til að hvíla Mikkel Hansen, Mathias Gidsel og Magnus Saugstrup.

Dregur okkur ekki óþarflega mikið niður

Jacobsen segir þó að tapið muni ekki sitja í Dönum.

„Þetta er ekki eitthvað sem dregur okkur óþarflega mikið niður. Við vildum allir saman vinna leikinn, á því leikur ekki nokkur vafi. Það er svekkjandi að við skyldum ekki vinna. Við erum auðvitað vonsviknir yfir því en við vitum líka alveg hvað bíður okkar á föstudaginn,“ sagði Jacobsen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×