Mótmælendur minntust Agnieszku T, sem lést í gær, lögðu blómvendi og ljós á valda staði til að minnast hennar. Agnieszka var ólétt að tvíburum en lést eftir að læknar neituðu að leyfa henni að gangast undir þungunarrof í kjölfar þess að hjarta annars fóstursins hætti að slá.
Fjölskylda Agnieszku sagði í yfirlýsingu að stjórnvöld væru ábyrg fyrir dauða hennar. Frekari mótmæli til minningar um hana hafa verið skipulögð í heimaborg hennar, Częstochowa.
Agnieszka, sem var þriggja barna móðir, var lögð inn á Sjúkrahús heilagrar Maríu meyjar í Częstochowa þann 21. desember síðastliðinn. Þegar hún var lögð inn var hún með mikla kviðverki en hún var enn á fyrsta þriðjungi meðgöngunnar.
Að sögn fjölskyldu hennar var Agnieszka við góða heilsu þegar hún lagðist inn á sjúkrahúsið en að heilsu hennar hafi hrakað hratt eftir innlögnina. Sama dag og hún lagðist inn hafi hjarta annars fóstursins hætt að slá og samkvæmt frásögn fjölskyldu hennar neituðu læknar að fjarlægja fóstrið og vísuðu í lög um þungunarrof.
Nokkrir dagar hafi liðið áður en hitt fóstrið dó sömuleiðis í legi Agnieszku. Læknar hafi beðið í tvo daga til viðbótar eftir það áður en þungunarrof var framkvæmt, sem var gert þann 31. desember. Þá voru tíu dagar liðnir frá því að fyrsta fóstrið lést.
Eftir að þungunarrofið var framkvæmt var Agnieszka flutt af kvennadeild og heilsu hennar hrakaði enn meira. Fjölskyldu hennar grunar að hún hafi fengið blóðeitrun en dástæða dauða hennar var sögð óþekkt af sjúkrahúsinu.