Krár fá nú að hafa opið og opnunartími veitingastaða verður lengdur um tvær klukkustundir. Nú er veitingastöðum heimilt að hleypa viðskiptavinum inn til klukkan 23 en allir þurfa að hafa yfirgefið staðinn fyrir 24.
Heimilt verður að halda sitjandi viðburði fyrir 500 manns að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og ekki er gerð krafa um hraðpróf. Takmarkanir í skólum verða hins vegar að mestu leyti óbreyttar. Grímuskylda verður enn óbreytt en tekur þó mið af nándarreglu hverju sinni.
Sund- og baðstöðum sem og líkamsræktarstöðvum og skíðasvæðum verður nú heimilt að taka á móti 75 prósent af hámarksfjölda leyfilegra gesta. Íþróttakeppnir verða áfram heimilar með 50 þáttakendum og áhorfendur leyfðir á ný.
Helstu afléttingar
- Almennar fjöldatakmarkanir fara úr 10 í 50 manns
- Nándarregla fer úr 2 metrum í 1 metra
- Óbreytt grímuskylda, sem tekur þó mið af nándarreglu
- Sund-, baðstaðir, líkamsræktarstöðvar og skíðasvæði heimilt að hafa opið með 75% afköstum
- Íþróttakeppnir áfram heimilar með 50 þáttakendum og áhorfendur leyfðir á ný
- Verslunum nú heimilt að taka á móti 500 manns
- Skemmtistöðum, krám, spilastöðum og spilakössum heimilt að hafa opið á ný
- Veitingastaðir, krár og skemmtistaðir mega taka á móti fólki til 23 en gestir verða að yfirgefa staðina fyrir miðnætti
- Á sitjandi viðburðum er heimilt að taka á móti 500 gestum í hólfi og ekki er þörf á hraðprófum