Handbolti

Kærastan ó­vænt hetja hand­bolta­lands­liðs Svía á Evrópumótinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sænski Evrópumeistarinn Lucas Pellas og kærasta hans Hanna Edwinson.
Sænski Evrópumeistarinn Lucas Pellas og kærasta hans Hanna Edwinson. Samsett/Instagram og EPA

Svíar urðu Evrópumeistarar um helgina en það þurfti hjálp úr óvæntri átt til að koma liðinu í úrslitaleikinn.

Sænski landsliðsmaðurinn Lucas Pellas átti mikinn þátt í því að Svíar komust alla leið í úrslitaleikinn á Evrópumótinu í handbolta. Á fimmtudagskvöldinu, sólarhring fyrir undanúrslitaleikinn á móti Frökkum, þá var hann ekki hluti af sænska hópnum og í raun staddur í öðru landi.

Svíar þurftu vinstri hornamann en Pellas var staddur í Frakklandi þar sem hann var að spila æfingarleik með liði sínu Montpellier. Það tókst hins vegar að hafa upp á honum og koma honum til Búdapest.

Lucas kom eins og kallaður til móts við sænska liðið í tíma fyrir undanúrslitaleikinn en hann skoraði sjö mörk úr átta skotum þær 24 mínútur sem hann spilaði á móti Frökkum. Svíar unnu leikinn með minnsta mun, 34-33.

Instagram

Sænska pressan var ekki bara tilbúinn að kalla Lucas Pellas eina af hetjum sænska landsliðsins því kærasta hans, Hanna Edwinson, fær einnig mikið hrós.

Ástæðan er að Lucas Pellas var ekki staddur í Montpellier þegar símtalið kom frá sænska landsliðsþjálfaranum heldur í borginni Saint Etienne þar sem æfingarleikurinn fór fram.

Sem betur fer var kærasta hans stödd heima í Montpellier og gat komið vegabréfinu til hans. Til þess þurfti hún aftur á móti að fórna miklu.

Lucas fékk það staðfest að hann væri kallaður út á EM eftir miðnætti en kærasta hans, Hanna Edwinson, var tilbúin að fórna einni nótt til að sjá til þess að hann kæmist til Ungverjalands.

Hún tók vegabréfið hans og tók næturrútu frá Montpellier til Lyon. Lucas tók sjálfur leigubíl á flugvöllinn. Ferðin hans tók frekar stuttan tíma en hún var aftur á móti þrjá og hálfa klukkutíma í rútunni.

„Ég vildi ekki keyra bílinn um miðja nótt í Frakklandi því það eru bara fimm vikur síðan ég fékk ökuskírteinið,“ sagði Hanna Edwinson í viðtali við Aftonbladet en hún hefur skapað sér nafn sem fyrirsæta.

Hanna kom vegabréfinu til kærastans og hann gat því flogið frá Lyon til Búdapest.

Flugið fór af stað 6.20 og lenti í Búdapest klukkan 12.45. Hanna fékk auðvitað að fara með.

„Hún er hetjan í dag,“ sagði Pellas um kærustu sína í viðtali við Aftonbladet.

„Ég vissi hvað hann langaði mikið að komast þangað og hversu gaman honum finnst að spila með þessum strákum,“ sagði Hanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×