Enski boltinn

Lampard tekinn við Everton

Sindri Sverrisson skrifar
Frank Lampard kann vel við sig í bláu og er hér með Everton-treyjuna.
Frank Lampard kann vel við sig í bláu og er hér með Everton-treyjuna. Everton FC

Everton kynnti í dag Frank Lampard til leiks sem nýjan knattspyrnustjóra félagsins. Hann skrifaði undir samning sem gildir til sumarsins 2024.

Fyrsti leikur Everton undir stjórn hins nýja stjóra verður á laugardaginn þegar liðið tekur á móti Brentford í 4. umferð ensku bikarkeppninnar. Liðið sækir svo Newcastle heim í ensku úrvalsdeildinni 8. febrúar.

Lampard á ærið verk fyrir höndum en Everton er í 16. sæti úrvalsdeildarinnar með aðeins 19 stig eftir 20 leiki, fjórum stigum frá fallsæti.

Lampard er 43 ára gamall og átti glæstan feril sem leikmaður, lengst af sem algjör lykilmaður í liði Chelsea. Hann hóf þjálfaraferilinn hjá Derby County árið 2018 og var einum sigri frá því að koma liðinu upp í úrvalsdeild í fyrstu tilraun. 

Lampard tók svo við Chelsea ári síðar og stýrði liðinu til 4. sætis í úrvalsdeildinni og í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar en var rekinn fyrir ári síðan eftir hrinu af slæmum úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×