Vigdís segir í samtali við fréttastofu að hún hafi í upphafi átt von á því að hljómsveitið yrði eitthvað „algjört ruglband.“ Það hafi hins vegar fljótlega komið á daginn að þær væru með „eitthvað alvöru“ í höndunum. FLOTT hefur nú gefið út fjögur lög og öll lögin hafa lent á Vinsældarlista Rásar 2, efst í fyrsta sæti.
„Það er mikill heiður að vera valin og bara mikil viðurkenning,“ segir Vigdís og bætir við að samningurinn geti haft í för með sér meiri dreifingu og meiri spilun enda Sony Music eitt stærsta útgáfufyrirtæki í heimi.
Hljómsveitin var stofnuð árið 2020 og samanstendur af Vigdísi Hafliðadóttur, Ragnhildi Veigarsdóttur, Eyrúnu Engilbertsdóttur, Sylvíu Spilliaert ásamt „heiðurstrommuleikaranum,“ Sólrúnu Mjöll Kjartansdóttur.
Þegar blaðamaður spyr hvað Vigdís á við með „heiðurstrommuleikaranum,“ segir Vigdís að hljómsveitarmeðlimir séu í raun fjórir en Sólrún spili yfirleitt með þeim, þegar hún hefur tíma: „Hún er bara svo upptekin - fræg. Hún er svo vinsæll trommuleikari,“ segir Vigdís glettin.
Næst á dagskrá er nýtt lag sem kemur út þann 4. febrúar næstkomandi og ber heitið FLOTT rétt eins og hljómsveitin. Þær vilji vilji svo að lokum gefa út plötu: „Við viljum bara gefa út slatta af lögum á árinu,“ segir Vigdís.
FLOTT eru meðal annars tilnefndar til Hlustendaverðlaunanna sem nýliði ársins. Vigdís segir að fólk megi endilega kjósa þær „ef það er sammála, en ef það er ósammála þá má það kjósa eitthvað annað,“ segir hún og hlær, og bætir við að það sé allt í góðu að vera ósammála.
„Þetta hefur verið draumi líkast, þetta hljómsveitarferðalag. Það er gaman að fólk taki eftir þessu og hafi trú á þessari hljómsveit. Við erum bara í skýjunum.“