Erlent

Danir kveðja grímuna, „kórónupassann“ og fjölda­tak­markanir

Atli Ísleifsson skrifar
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, var ánægð þegar hún tilkynnti um breytingarnar í síðustu viku.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, var ánægð þegar hún tilkynnti um breytingarnar í síðustu viku. EPA

Covid-19 er ekki lengur skilgreindur sem sjúkdómur sem ógnar dönsku samfélagi frá deginum í dag og hefur það í för með sér víðtækar afléttingar.

Grímaskyldan er ekki lengur í gildi og sömu sögu er til dæmis að segja af „kórónupassanum“ sem Danir hafa mikið notast við síðustu misserin. Þá verður næturlífinu engar skorður settar frá og með deginum í dag, að því er segir í yfirferð DR.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, og heilbrigðisráðherrann Magnus Heunicke greindu frá afléttingunum í síðustu viku og að þær myndu taka gildi nú um mánaðamótin.

Danir hafa þurft að búa við grímuskyldu á opinberum stöðum, í almenningssamgöngum og víðar allt frá ágúst 2020, með hléum þó. Þetta á ekki lengur við þó að gestir á sjúkrahúsum og hjúkrunarheimilum verði áfram hvattir til að notast við grímu.

Notkun „kórónupassans“, sem sýndi fram á að viðkomandi hafi nýlega mælst með neikvætt PCR-próf, væri bólusettur, eða hafi nýverið greinst með Covid-19, og sem framvísa þurfti til að að sækja veitingastað, sundstaði, ýmsar menntastofnanir, fjölda vinnustaða og víðar, verður sömuleiðis hætt.

Loks verða ekki lengur neinar fjöldatakmarkanir á samkomur á borð við íþróttaviðburði, leikhússýningar og tónleika.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×