Skoðun

Al­gjör þögn um vopna­flutninga

Andrés Ingi Jónsson skrifar

Fyrir þremur árum kom í ljós að stjórnvöld voru með allt niðrum sig varðandi leyfisveitingar til vopnaflutninga með íslenskum loftförum. Fréttaskýringaþátturinn Kveikur sýndi að yfirvöld höfðu m.a. heimilað flutninga vopna til Sádi-Arabíu, þaðan sem þau bárust til Jemens og Sýrlands – þvert á alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar Íslands. Ferlinu var breytt og það fært yfir til utanríkisráðuneytisins. Hvernig hefur gengið síðan, spurði ég og fékk svar í dag.

Alls hafa borist 69 umsóknir um vopnaflutninga frá vorinu 2019, aðeins einni þeirra hefur verið hafnað. Meira fáum við ekki að vita. Stjórnvöld ætla ekki að afhenda neinar upplýsingar um það hvort þau séu aftur eða ennþá með allt niðrum sig - ekki einu sinni einföldustu upplýsingar um hversu mikið af vopnum er verið að flytja, á milli hvaða landa eða neitt annað sem máli skiptir. Ástæðan? Fjárhags- og viðskiptahagsmuni þeirra sem selja, flytja og kaupa vopnin. Í alvöru – það stendur í svarinu!

Ráðuneytið býðst þó til að ræða þetta í trúnaði við utanríkismálanefnd, sem gæti hins vegar ekkert brugðist við ef kæmi í ljós að allt væri í rugli hjá ráðuneytinu, því hún væri bundin trúnaði!

Ríkisstjórn Íslands stærir sig gjarnan af því að vinna í þágu friðar á alþjóðavísu, en slær á sama tíma fullkomnum leyndarhjúp yfir vopnaflutninga fyrir stríðsrekstur og mögulega stríðsglæpi. Það gengur einfaldlega ekki upp!

Höfundur er þingmaður Pírata. 




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×