Sarah Jessica svaraði þessari gagnrýni meðal annars í Vogue. Þónokkrar heimsþekktar konur láta gráu hárin njóta sín og hér á landi eru nokkrar flottar ungar konur sem eru ófeimnar við að sýna gráu hárin. Vala Matt fór í leiðangur fyrir Ísland í dag og skoðaði málið.
Í innslaginu skellti Vala sér á hárgreiðslustöðina Rauðhetta og Úlfurinn í Borgartúninu og ræddi þar við Sigurveigu Grétarsdóttur og hárgreiðslumanninn Róbert sem leyfa bæði gráu hárunum að njóta sín.
„Ég fann mitt fyrsta gráa hár þegar ég var átján ára gömul og byrjaði fyrst að fela þau því það var normið. Síðan fyrir um tíu árum síðan sá ég í hvað stefndi, þar sem ég var að verða ansi grá og það er ákveðin binding að lita sig í hverjum einasta mánuði svo maður sé ekki með rót. Ég tók þá ákvörðun að hætta að lita mig í rótina,“ segir Sigurveig.
„Mín kynslóð leyfir alveg sínu gráu hárum að koma fram sko og það eru alltaf að verða fleiri og fleiri stelpur með gráu hárin. Núna er það að verða ásættanlegt að konur sýni gráu hárin sín og bara yngri og yngri,“ segir hárgreiðslumaðurinn Robert Michael O´Neill sem starfar á Rauðhettu og Úlfinum.
„Svo er hægt að blanda strípum við gráu hárin svo það verði ekki of flatt.“
Hér að neðan má sjá innslagið í heild sinni.