Umfjöllun: Valur - Víkingur 33-19 | Meistararnir ekki í neinum vand­ræðum

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
visir-img
vísir/elín björg

Í kvöld fór fram fyrsti leikur Olís-deildar karla á þessu ári með leik Vals og Víkings á heimavelli Valsmanna í Origo höllinni. Lauk leiknum með öruggum sigri Vals, lokatölur 33-19.

Þrír leikmenn léku í dag sem hafa lítið eða ekkert spilað á tímabilinu. Hjá Val var Róbert Aron Horstet að spila sinn fyrsta leik síðan í fyrstu umferð tímabilsins, en eftir þann leik fór hann í aðgerð sem hefur haldið honum frá keppni. 

Hjá Víking voru tvö andlit sem ekkert hafa spilað á tímabilinu. Pétur Júníusson var kominn í leikmannahóp Víkinga í fyrsta sinn á tímabilinu. Hann gerði samning við Víking síðasta sumar eftir þriggja ára fjarveru frá handbolta. Auk Péturs var Gunnar Valdimar Johnsen kominn í liðið hjá Víkingum, en hann kom á láni frá ÍR nú í janúar síðastliðnum.

Leikurinn var ansi jafn fyrstu mínútur leiksins, eftir tólf mínútna leik var staðan 5-5, en eftir það stakk Valur einfaldlega af. Hver tapaði boltinn á fætur öðrum hjá Víkingum færði Valsmönnum hvert hraðaupphlaupið á fætur öðru, sem flest öll nýttust. Einar Þorsteinn Ólafsson var með sýningu sóknarlega hjá Valsmönnum í fyrri hálfleik, en hann skoraði fimm mörk í honum. 

Björgvin Páll átti afar góðan leikVísir/Hulda Margrét

Björgvin Páll vildi þó einnig taka þátt í sýningunni. Hann gerði sér lítið fyrir og varði þrjú víti í fyrri hálfleik. Eftir um 21. mínútna leik var Valur kominn með sjö marka forystu, staðan 13-6. Víkingar reyndu hvað þeir gátu til að minnka þann mun fyrir hlé, en Valsmenn gáfu þá bara jafn harðan í. 

Staðan í hálfleik 17-10.

Í síðari hálfleik kom Motoki Sakai í mark Vals og hélt uppteknum hætt í markvörslu liðsins. Víkingar voru á löngum köflum ráðalausir í sókninni og töpuðu boltanum trekk í trekk, líkt og í fyrri hálfleik. Valsmenn nýttu sér það og tóku fótinn sjaldan af bensíngjöfinni í síðari hálfleik. Lokatölur að Hlíðarenda 33-19, fyrir Val.

Af hverju vann Valur?

Sama hvert litið var, Valsmenn voru sterkari á öllum sviðum handboltans. Sóknarlega, varnarlega og viljinn var jafnvel meiri hjá heimamönnum heldur en gestunum. Víkingar koðnuðu fljótt niður þegar Valsmenn tóku fram úr þeim eftir um tólf mínútna leik.

Hverjir stóðu upp úr?

Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði níu mörk í leiknum og var góður í vörn Valsmanna einnig. Báðir markverðir Vals voru frábærir í dag, voru þeir báðir með um og yfir 40% markvörslu í leiknum.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Víkinga. Tíu mörk í fyrri hálfleik og níu mörk í þeim seinni skilar þér litlu sem engu í þessari deild, hvað þá gegn Val.

Hvað gerist næst?

Valsmenn fara til eyja næsta sunnudag og leika við ÍBV kl. 14:00, stórleikur þar á ferð. Sama dag fá Víkingar lið FH í heimsókn og hefst sá leikur kl. 18:00.

Við sýndum þeim þá virðingu í þessum leik að gera þeim þetta auðvelt fyrir

Jón Gunnlaugur Viggósson, þjálfari Víkinga.Víkingur

Jón Gunnlaugur Viggósson, þjálfari Víkinga var ekki par hrifinn af frammistöðu sinna manna í kvöld.

„Hún var á þá leið að Valsmenn eru með nokkra leikmenn sem voru stolt okkar á EM fyrir nokkrum dögum síðan og við sýndum þeim þá virðingu í þessum leik að gera þeim þetta auðvelt fyrir. Þegar við erum að klúðra fjórum vítum í fyrri hálfleik og fimm dauðafærum og með tíu tæknifeila þá er þetta ansi erfitt. Ég er ekki að fara að setja upp eitthvað töfrakerfi sem er að fara koma okkur í betri færi. Við þurfum bara aðeins að keyra okkur í gang. Við erum að róa hérna lífróður í deildinni og við erum svo sannarlega ekki að sýna það.“

Aðspurður út í nýju leikmenn liðsins þá Pétur Júníusson og Gunnar Valdimar Johnsen hafði Jón Gunnlaugur Viggósson, þjálfari Víkings þetta að segja.

„Þetta eru flottir karakterar sem þurfa bara að koma sér í gang báðir tveir. Gunnar stóð sig mjög vel í dag og Pétur, hans mínútum fer bara fjölgandi. En sem lið þurfum við að spila miklu, miklu betur ef við ætlum að fá nokkurn skapaðan hlut í leikjunum sem eftir eru.“

FH er næst mótherji Víkinga. Jón Gunnlaugur Viggósson, þjálfari Víkings vill sjá meiri baráttu frá sínum mönnum í þeim leik.

„Það segir sig sjálft að við þurfum að byrja á því að þora. Við erum ekki að fara mæta FH-ingunum og sýna þeim einhverja virðingu. Við þurfum að mæta með kassann út og gíra okkur upp í smá slagsmál. Það er það fyrsta sem við þurfum að gera og næst er að koma boltanum fram hjá markmönnunum, það tókst svo sannarlega ekki í dag“.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira