„Það er ljóst að það er tímafrekt og ákaflega flókið verkefni fram undan,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi.
Flugvélin fannst klukkan rúmlega tíu í gærkvöldi rétt eftir að flestir viðbragðsaðilar höfðu lokið störfum og frestað leitinni til morguns. Séraðgerðasveit ákvað að halda aðeins áfram að leita með kafbátnum og fundu vélina síðan á 50 metra dýpi í sunnanverðum hluta Þingvallavatns.
Oddur segir veðurskilyrði afar slæm til aðgerða á svæðinu.
„Þau eru alls ekki góð og alveg ljóst að menn byrja ekki á öðru í dag en undirbúningi.“

Rannsóknin verði ekki unnin í fjölmiðlum
Leit hófst af flugvélinni um hádegisbil á fimmtudag en um borð í henni voru flugmaður auk þriggja ferðamanna í skipulögðu útsýnisflugi.
Ekki liggur fyrir hvað fór þar úrskeiðis og vill Oddur ekkert segja um möguleg tildrög slyssins að svo stöddu.
„Við gefum ekkert upp annað en að rannsóknin er bara í gangi og hún verður ekki unnin í fjölmiðlum.“
Lögreglan á Suðurlandi hefur alfarið tekið við málinu af Landhelgisgæslunni eftir að vélin fannst. Allir viðbragðsaðilar sem komið hafa að málinu funda í hádeginu um næstu skref og hvernig hægt verði að sækja vélina.
„Lögreglumenn, starfsmenn gæslunnar og þeir sem að þessu koma byrjuðu að fara yfir gögnin í gær og eru að vinna úr þeim og leggja þau fyrir okkur í hádeginu. Þá verða ákvarðanir um næstu skref tekin,“ segir Oddur.
Þau verða kynnt eftir fundinn.
„Það er full ástæða til að þakka öllum sem að þessu komu; björgunarsveitarmönnum, sjálfboðaliðum á flugvélum og öllum sem lögðu hönd á plóginn. Það var hópur af fólki sem lagði björgunarliðum til húsnæði og það var bara einstakt að verða vitni að svona samheldni í samfélaginu,“ segir Oddur.