Fótbolti

Valsmenn unnu Reykjavíkurmótið annað árið í röð | Pedersen skoraði þrennu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Patrick Pedersen skoraði þrennu í öruggum sigri Valmanna í dag.
Patrick Pedersen skoraði þrennu í öruggum sigri Valmanna í dag. Vísir/Hulda Margrét

Valsmenn fögnuðu sigri er liðið tók á móti KR í úrslitaleik Reykjavíkurmótsins í fótbolta á Origo-vellinum í dag. KR-ingar komust yfir snemma leiks, en þrenna frá Patrick Pedersen í síðari hálfleik tryggði Valsmönnum 4-1 sigur.

KR-ingar byrjuðu betur og uppskáru mark fyrir vikið á 18. mínútu leiksins. Þar var að verki Kristján Flóki Finnbogason eftir fyrirgjöf frá Stefáni Árna Geirssyni.

Valsmenn virtust vakna almennilega við að fá þetta mark á sig og á 25. mínútu átti liðið skot í slá og fimm mínútum síðar björguðu KR-ingar á línu eftir skot frá Patrick Pedersen.

Í millitíðinni þurfi Andri Alphonsson að fara af velli vegna meiðsla og í hans stað kom Guðmundur Andri Tryggvason inn á völlinn. Í beinni textalýsingu á Fótbolti.net kom fram að Andri hafi verið borinn af velli á sjúkrabörum, en ekki var vitað hversu alvarleg meiðslin voru.

Guðmundur var ekki búinn að vera í nema um eina mínútu á vellinum þegar hann skoraði fyrsta mark Valsmanna gegn uppeldisfélagi sínu.

Staðan var því 1-1 þegar flautað var til hálfleiks, en þegar rétt rúmur klukkutími var liðinn af leiknum var komið að Patrick Pedersen.

Hann kom Valsmönnum yfir á 61. mínútu eftir stoðsendingu frá Orra Hrafni Kjartanssyni og skoraði sitt annað mark rétt rúmum tíu mínútum síðar. Hann fullkomnaði svo þrennu sína þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka og tryggði Valsmönnum um leið 4-1 sigur.

Það voru því Valsarar sem fögnuðu sigri á Reykjavíkurmótinu annað árið í röð, en KR-ingar þurfa að sætta sig við annað sætið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×