Handbolti

Hans Lind­berg fór í markið í stutt­buxunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hans Lindberg var ekki bara markahæstur í gær hann þurfti líka að koma liði sínu til bjargar með því að fara í markið um tíma.
Hans Lindberg var ekki bara markahæstur í gær hann þurfti líka að koma liði sínu til bjargar með því að fara í markið um tíma. Getty/City-Press

Íslenski Daninn Hans Lindberg var ekki aðeins markahæstur hjá Füchse Berlin í Evrópudeildinni í handbolta í gærkvöldi því hann fór líka í markið hjá liðinu.

Lindberg skoraði tíu mörk fyrir Füchse Berlin í 30-27 sigri á svissneska liðinu Pfadi Winterthur.

Það vakti hins vegar meiri athygli þegar hann hoppaði í markið á stuttbuxunum.

Lindberg þurfti að fara í markið þegar markvörður liðsins, Dejan Milosavljev, mátti ekki koma inn á í þrjár sóknir eftir að hafa fengið aðstoð inn á vellinum.

Lindberg sýndi að hann er líka öflugur markvörður með því að verja fyrsta skotið frá vinstri hornamanni Winterthur.

Lindberg er enn að spila frábærlega þrátt fyrir að vera fertugur síðan í ágúst. Hann hefur spilað 272 landsleiki fyrir Dani þrátt fyrir að báðir foreldrar hans séu íslenskir.

Lindberg er fæddur og uppalinn í Danmörku og hefur alltaf litið á sig sem Dana þótt við Íslendingar reyndum stundum að eiga eitthvað í honum.

Foreldrar Hans eru Sigrún Sigurðardóttir og Tómas Erling Lindberg Hansson, bæði úr Hafnarfirði. Faðir hans á þó færeyska foreldra og þaðan er ættarnafnið komið.

Það má sjá þessa frábæru markvörslu Lindberg hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×