Tónlist

Þátttaka Reykjavíkurdætra í Söngvakeppninni vekur athygli út fyrir landsteina

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Reykjavíkurdætur verða allar átta á sviðinu í undankeppni Eurovision en þó í ólíkum formum.
Reykjavíkurdætur verða allar átta á sviðinu í undankeppni Eurovision en þó í ólíkum formum. RÚV

Reykjavíkurdætur eru meðal íslenskra keppenda í undankeppni fyrir Eurovision í ár. Þátttaka þeirra hefur vakið athygli úti í hinum stóra heimi þar sem ýmis erlend tónlistar- og menningartímarit hafa fjallað um þetta.

Má þar nefna tímaritin NME, sem er vinsælt breskt tónlistar-götublað og breska rafræna tónlistarblaðið Line of Best Fit.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Reykjavíkurdætur rata í blöðin erlendis þar sem eitt stærsta tónlistartímarit okkar samtíma, Rolling Stone, tók viðtal við þær í nóvember síðastliðnum í tengslum við Iceland Airwaves. Einnig birtist umfjöllun um þær í tímaritinu New York Times fyrir stuttu síðan. 

Því má með sanni segja að fjölmiðlar hafi mikinn áhuga á þessu kraftmikla kven-bandi. Blaðamaður tók púlsinn á Þuru Stínu, meðlim hljómsveitarinnar, og fékk að heyra hvernig þær eru stemmdar fyrir keppninni ásamt því að forvitnast um hvað þær koma til með að vera margar á sviði, þar sem þær eru átta talsins og Eurovision leyfir einungis sex keppendur á sviði.

Stoltar af því að vera frá Íslandi

„Það er mjög spennandi og skemmtilegt að lagið sé að vekja athygli erlendis og að fólk sé spennt fyrir þátttöku okkar í Söngvakeppninni! Það er auðvitað alltaf gaman þegar fólk hampar tónlistinni þinni,“ segir Þura Stína, en Reykjavíkurdætur eru þaulvanar að spila fyrir erlenda tónleikagesti. 

„Okkar markaður hefur nánast bara verið erlendis seinustu ár en við höfum verið að túra um Evrópu og víðar síðan 2016. En þó að við höfum meira verið að koma fram utan Íslands erum við alltaf mjög stoltar af því að vera frá Íslandi, kennum fólki íslensku á tónleikum og flest lögin okkar eru bæði á íslensku og ensku.

Það er alveg magnað að sjá þúsundir manns dansa og reyna að syngja með lögunum okkar á íslensku.“

Skemmtilegast að koma fram saman

Aðspurðar hvort þessi athygli peppi þær enn frekar fyrir keppninni segjast þær ekki vita hvort það sé hægt að vera meira peppaðar en þær eru nú þegar.

„Það er búið að vera svo gaman hjá okkur að semja lagið, undirbúa atriðið og sinna fleiri verkefnum þessu tengdu að við getum ekki beðið eftir að flytja lagið fyrir áhorfendur. Það er líka bara svo gaman að geta loksins sagt frá þátttökunni en það er búið að vera mikil og leyndardómsfull vinna síðustu mánuði. Við erum líka búnar að sakna þess svo mikið að koma fram með hver annarri því það er það skemmtilegasta sem við gerum.“

Keppnin leggst því virkilega vel í þær.

„Við erum svo ótrúlega spenntar en það er búið að vera draumur hjá okkur lengi að taka þátt í Söngvakeppninni.

Við erum bara svo margar og við höfum alltaf haft of mikið annað fyrir stafni að það hefur aldrei gefist tími til þess að senda lag inn fyrr en nú. Þetta er búið að vera svo geggjað ferli hingað til og við getum ekki beðið eftir að komast á sviðið. Það var ótrúlega gaman að heyra hin lögin og verður enn meira spennandi að sjá atriðin hjá öllum í keppninni.“

Verða allar á sviðinu í mismunandi formi

Frá því að tilkynnt var um þátttöku Reykjavíkurdætra í Söngvakeppninni hefur blaðamaður verið forvitinn að vita hve margar af þeim verða á sviðinu sjálfu.

„Samkvæmt reglum Eurovision mega aðeins sex flytjendur stíga á sviðið en við erum átta í hljómsveitinni. Það kom samt aldrei neitt annað til greina en að hljómsveitin tæki öll þátt í þessu verkefni.“

„Við erum búnar að vera svo lengi starfandi sem hljómsveit, þekkjum styrkleika okkar og erum þess fyrir utan bestu vinkonur. Við vissum að við vildum gera allt sem við gætum til að vera allar sem ein í atriðinu og leysum þetta þannig að tvær okkar verða á skjáum á sviðinu. 

Þannig í raun verðum við átta þó þar af séu bara sex í fýsísku formi,“ 

segir Þura Stína að lokum.


Tengdar fréttir

Öllum lögum Söngva­keppninnar lekið

Öllum lögum sem teflt verður fram í Söngvakeppni sjónvarpsins hefur verið lekið á netið. Til stóð að afhjúpa lög og keppendur í kvöld.

Drekka brjósta­mjólk á Sumri hinna heitu mæðra

Mæður eru kynþokkafullar, allavega í sumar, að mati Reykjavíkurdætra. Rapphópurinn sendi frá sér glænýtt myndband í dag við nýjasta lag sitt sem kom út um miðjan mánuðinn í samvinnu við rapparann STEPMOM.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×