Enski boltinn

Aston Villa og Leeds skiptu stigunum á milli sín í sex marka leik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Philippe Coutinho skoraði eitt og lagði upp hin tvö fyrir Aston Villa í kvöld.
Philippe Coutinho skoraði eitt og lagði upp hin tvö fyrir Aston Villa í kvöld. Shaun Botterill/Getty Images

Aston Villa og Leeds skildu jöfn er liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Niðurstaðan varð 3-3 jafntefli í bráðfjörugum leik.

Daniel James kom gestunum í Leeds yfir strax á níundu mínútu, áður en Philippe Coutinho jafnaði metin fyrir heimamenn eftir hálftíma leik.

Coutinho var þó ekki hættur því hann lagði upp annað mark Aston Villa á 38. mínútu fyrir Jacob Ramsey. Heimamenn sáu að þetta var uppskrift sem þeim líkaði við þannig að Coutinho lagði upp fyrir Jacob Ramsey í annað sinn aðeins fimm mínútum síðar.

Daniel James var þó ekki á því að fara tveimur mörkum undir inn í hálfleikinn og hann minnkaði muninn fyrir gestina í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Það var svo Diego Llorente sem jafnaði metin fyrir Leeds á 63. mínútu þegar hann var tók frákast eftir skot frá Pascal Struijk.

Ezri Konsa nældi sér í sitt annað gula spjald í liði Aston Villa á lokamínútum leiksins og þar með rautt, en það kom þó ekki að sök og niðurstaðan varð 3-3 jafntefli.

Aston Villa Situr nú í 11. sæti deildarinnar með 27 stig eftir 22 leiki, fjórum stigum og fjórum sætum fyrir ofan Leeds.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×