Körfubolti

„Lögðum mikið upp úr því að koma tilbúnar til leiks“

Siggeir F. Ævarsson skrifar
Ólafur Jónas Sigurðsson, þjálfari Vals, var ánægður með sigur kvöldsins.
Ólafur Jónas Sigurðsson, þjálfari Vals, var ánægður með sigur kvöldsins. Vísir/Bára Dröfn

Ólafur Jónas Sigurðsson, þjálfari Vals, var að vonum sáttur með sigur liðsins gegn Keflavík í Subway-deild kvenna í körfubolta í kvöld.

Valskonur náðu undirtökum í leik kvöldsins gegn Keflavík strax í upphafi, en þær komu stöðunni í 13-2 í byrjun. Ég spurði Ólaf Jónas Sigurðsson, þjálfara Vals, hvort hann væri sama sinnis og hann tók í sama streng.

„Við lögðum mikið uppúr því að koma tilbúnar til leiks strax í upphafi. Við vitum alveg hvernig Keflavík byrja leiki, þær byrja mjög aggressíft og við þurftum að vera á tánum til að mæta þeirra ákefð, sérstaklega hversu aggressífar þær eru varnarlega. Og við sáum það alveg hérna í kvöld, við áttum eiginlega bara í erfiðleikum með að stilla upp í öllum leiknum. Þannig að ég er bara mjög sáttur við það hvernig við mættum til leiks strax í byrjun.“

Valur leiddi allan leikinn en Keflavík tóku nokkur áhlaup og gerðu sig líklegrar en Valur átti alltaf svör.

„Ég er mjög sáttur við hvernig þetta spilaðist hjá okkur í kvöld. Við vorum náttúrulega að spila við Keflavík. Þær þurfa bara 1-2 mínútur til að ná niður 10 stiga forskoti. Við vorum alltaf viðbúnar því að það kæmi „run“ og við vorum meðvitaðar um að stoppa alltaf um leið og þær næðu einhverju áhlaupi.“

Valur eru nú búnar að safna þremur sigrum í röð og eru í þéttum pakka í toppbaráttunni. Aðspurður um hvort Valur myndi ekki setja stefnuna á fyrsta sætið sagði Ólafur að það væri ekkert annað í boði.

„Að sjálfsögðu. Það væri í rauninni fáránlegt ef við myndum ekki gera það. En við tökum samt bara einn leik í einu. Við höfum verið að vinna með það í vetur og setjum núna fókusinn á næsta verkefni sem eru Haukar. Við vorum að spila á móti þeim og vitum að þær mæta dýrvitlausar. Við unnum þær síðast og ætlum að mæta grimmar í þann leik.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×