Innlent

61 prósent landsmanna frekar eða mjög andvíg kvótakerfinu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ef horft er til tekna er andstaðan við kvótakerfið minnst hjá þeim sem eru með 800 þúsund krónur eða meira í tekjur á mánuði. Þó segjast 56 prósent þess hóps vera andvíg kvótakerfinu.
Ef horft er til tekna er andstaðan við kvótakerfið minnst hjá þeim sem eru með 800 þúsund krónur eða meira í tekjur á mánuði. Þó segjast 56 prósent þess hóps vera andvíg kvótakerfinu. Vísir/Vilhelm

Ríflega 60 prósent landsmanna eru andvíg kvótakerfinu en 20 prósent eru mjög eða frekar hlynnt því. Andstaðan er meiri meðal kvenna en karla og meiri hjá þeim sem búa á höfuðborgarsvæðinu en hjá þeim sem búa á landsbyggðinni.

Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag en um er að ræða niðurstöður könnunar Prósents.

65 prósent kvenna segjast andvíg kvótakerfinu en 59 prósent karla. Sömuleiðis eru 65 prósent íbúa höfuðborgarsvæðisins á móti kvótakerfinu en 55 prósent íbúa á landsbyggðinni.

Sé horf til aldurshópa er andstaðan mest meðal einstaklinga á aldrinum 35 til 44 ára; 71 prósent. Andstaðan er minnst meðal ungmenna á aldrinum 18 til 24 ára en í þeim aldurshóp er að finna stærsta hóp þeirra sem segjast hvorki með né á móti kvótakerfinu; 35 prósent.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir erfitt að draga skýrar ályktanir af niðurstöðum könnunarinnar, enda hafi fólk margar og misjafnar skoðanir á því hvernig breyta eigi kerfinu.

„Ég hef séð svona spurningar og niðurstöður áður þannig að þetta kemur mér ekki á óvart,“ hefur Fréttablaðið eftir Heiðrúnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×