Erlent

Stjarna úr Cheer játar barnaníð og á yfir höfði sér 50 ára fangelsi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Harris skaust upp á stjörnuhimininn eftir að hafa komið fram í þáttunum Cheer á Netflix.
Harris skaust upp á stjörnuhimininn eftir að hafa komið fram í þáttunum Cheer á Netflix. Getty/Jim Spellman

Jeremiah „Jerry“ Harris, sem er þekktur fyrir að koma fram í þættinum Cheer sem sýndur er á Netflix, hefur játað að hafa brotið alríkislög með því að taka á móti barnaklámi og ferðast yfir ríkismörk til að stunda ólöglegt kynlífsathæfi.

Harris var handtekinn í Chicago árið 2020 og hefur sætt gæsluvarðhaldi síðan.

Ákæruvaldið í málinu samþykkti að fella niður fimm aðra ákæruliði gegn því að Harris játaði.

Cheer eru heimildarþættir um klappstýrulið Navarro College í Texas og hafa notið mikilla vinsælda. Þá hafa þeir verið tilnefndir til Emmy-verðlauna.

Harris varð sjálfur þess heiðurs aðnjótandi að fá að fylgja sjónvarpskonunni Ellen DeGeneres á Óskarsverðlaunin, þar sem hann tók viðtöl við fræga fólkið á rauða dreglinum.

Rannsókn málsins gegn Harris hófst þegar móðir tveggja drengja, sem Harris er sagður hafa misnotað, setti sig í samband við lögregluyfirvöld. Brotin sem hann hefur játað á sig eru að hafa greitt 17 ára dreng fyrir að senda sér nektarmyndir og að hafa ferðast til Flórída til að misnota 15 ára dreng.

Harris virðist hafa brotið gegn fleiri drengjum en í síðustu þáttaröð Cheer stigu tvíburabræður fram og sögðu frá því hversu erfitt að hefði verið að segja frá samskiptum þeirra við Harris. Samskiptin hefðu átt sér stað þegar þeir voru 13 ára og Harris meðal annars óskað eftir „rassamyndum“.

Saksóknarar segja Harris hafa játað að hafa skipst á myndum við 10 til 15 börn í þremur ólíkum ríkjum, sem hann vissi að voru undir lögaldri. 

Harris verður gerð refsing 28. júní næstkomandi en hann á yfir höfði sér allt að 50 ára fangelsi.

BBC sagði frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×