Líkt og greint var frá í gær voru tveir karlmenn á þrítugsaldri handteknir í tengslum við árásina. Kona liggur alvarlega sár á Landspítalanum eftir að hafa verið skotin í kviðinn og karlmaður særðist illa eftir að hafa fengið skot í fótinn. Báðir eiga mennirnir sér talsverða sögu hjá lögreglu, þar af var annar þeirra dæmdur fyrir tilraun til manndráps auk þess sem hann hefur hlotið dóm fyrir vopnalagabrot, eftir að skotið úr byssu og miðað henni á annan mann, svo dæmi séu tekin.
Lögreglu var tilkynnt um árásina á fjórða tímanum í fyrrinótt og í kjölfarið var ráðist í gríðarlegar umfangsmiklar aðgerðir við að hafa uppi á skotmanninum. Þegar mest lét tóku hátt í áttatíu lögreglumenn, auk sérsveitar ríkislögreglustjóra, þátt í að leita að manninum. Hann var handtekinn um klukkan níu í gærmorgun og í framhaldinu var meintur vitorðsmaður handtekinn.
Grímur segir í samtali við fréttastofu að mennirnir hafi báðir verið yfirheyrðir en vill að öðru leyti ekki upplýsa frekar um gang mála. Búið er að haldleggja ætlað skotvopn, skammbyssu, og ökutæki, í tengslum við málið.