Innlent

Kviknaði í snjó­ruðnings­tæki í Kömbunum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Snjóruðningstækið var á leiðinni upp Kambana.
Snjóruðningstækið var á leiðinni upp Kambana.

Eldur kviknaði í snjóruðningstæki í Kömbunum austan Hellisheiðar á fimmta tímanum í dag. Ekki er vitað til þess að nein slys hafi orðið á fólki.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir í samtali við fréttastofu að líklega sé um að ræða verktaka sem sé við störf fyrir Vegagerðina.

Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu, segir í samtali við Vísi að slökkviliðið sé að ná tökum á eldinum. 

„Þetta var gríðarlega mikill eldur, bíllinn var alelda,“ segir Pétur. Slökkvistarf sé langt komið.

Pétur segir eðli máls samkvæmt nokkra bílaröð hafa myndast á leiðinni upp Kambana enda komist bílarnir ekki fram hjá logandi bílnum. Hann minnir fólk á að Þrengslin séu opin.

Hann segir ekki vitað til þess að slys hafi orðið á fólki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×