Í gær sendi utanríkisráðuneytið frá sér tilkynningu þar sem fólk sem hyggur á ferðalög til Úkraínu var hvatt til þess að kynna sér vel ferðaviðvaranir áður en haldið væri af stað. Þá voru Íslendingar í Úkraínu hvattir til þess að láta vita af sér. Staðan í Úkraínu er afar óviss um þessar mundir, þar sem blikur eru á lofti um hvort Rússar, sem komið hafa upp miklum herafla við landamæri landanna tveggja, muni ráðast inn í landið.
Sveinn H. Guðmarsson, fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir nú unnið að því að komast í samband við Íslendinga í Úkraínu.
Ráðuneytið ekki gefið út eiginlega viðvörun
„Þetta eru fyrst og fremst Íslendingar, íslenskir ríkisborgarar, sem hafa tímabundna búsetu í Úkraínu,“ segir Sveinn í samtali við fréttastofu.
Hann áréttar þá að ráðuneytið hafi ekki gefið út viðvörun vegna ástandsins í Úkraínu, heldur sé verið að vekja athygli fólks á óvissri stöðu í landinu.

„Og þess vegna hvetjum við fólk til þess að hugsa sig mjög vel um áður en það heldur til Úkraínu, eða þeir sem eru nú þegar í Úkraínu að huga að því að ferðaskilríki séu í lagi, hvernig breyta megi hugsanlegum ferðaplönum ef þau eru til staðar og fylgjast síðan með ferðaviðvörunum annarra ríkja. En Ísland er ekki að gefa út sérstaka viðvörun vegna Úkraínu, ekki frekar en annarra ríkja.“
Líkt og áður sagði hafa Íslendingar sem staddir eru i Úkraínu verið hvattir til þess að láta vita af sér. Það sé meðal annars hægt að gera i gegnum netfangið hjalp@utn.is.
Innrás myndi takmarka svigrúm til borgaraþjónustu
Sveinn segir ljóst að ef til innrásar kæmi gæti orðið erfiðara fyrir ráðuneytið að liðsinna Íslendingum í Úkraínu.
„Við sáum það til dæmis í Afganistan á síðasta ári, að eftir því sem syrti í álinn, þeim mun erfiðara var að aðstoða fólk við að koma heim,“ segir Sveinn.
„Það er aðalatriði að fólk sé meðvitað um þá óvissu sem er uppi og hagi sínum áformum í samræmi við það.“