Handbolti

Valskonur áttu ekki í vandræðum með HK

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Thea Imani Sturludóttir skoraði fjögur mörk í öruggum sigri Vals.
Thea Imani Sturludóttir skoraði fjögur mörk í öruggum sigri Vals. Vísir/Hulda Margrét

Valur vann afar sannfærandi níu marka sigur, 23-14, er liðið heimsótti HK í Olís-deild kvenna í handbolta í dag.

Mikið jafnræði var með liðunum í upphafi leiks og lítið skorað. Þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður var staðan jöfn, 4-4. Valskonur vöknuðu þá til lífsins og náðu fimm marka forystu áður hálfleikurinn var á enda, staðan 13-8 þegar gengið var til búningsherbergja.

Heimakonum í HK gekk bölvanlega að skora mörk í síðari hálfleik, en þegar um tíu mínútur voru til leiksloka var staðan orðin 20-11, Valskonum í vil. Gestirnir kláruðu að lokum öruggan níu marka sigur, 23-14.

Hildigunnur Einarsdóttir og Thea Imani Sturludóttir voru markahæstar í liði Vals með fjögur mörk hvor. Þá átti Sara Sif Helgadóttir frábæran leik í markinu og varði 14 skot af þeim 24 sem hún fékk á sig, en það gerir tæplega 60 prósent markvörslu.

Í liði HK var Jóhanna Margrét Sigurðardóttir atkvæðamest með sex mörk.

Valskonur sitja í öðru sæti deildarinnar með 20 stig eftir 15 leiki, einu stigi á eftir toppliði Fram sem hefur þó leikið tveimur leikjum minna. HK-ingar sitja hins vegar í næst neðsta sæti deildarinnar með níu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×