Everage skoraði 32 stig, tók sex fráköst og gaf sjö stoðsendingar í leiknum. Hann er stigahæsti leikmaður deildarinnar með 25,4 stig að meðaltali í leik.
„Hann gerði þetta líka á móti Tindastóli og hann er bara að éta menn. Er betri einn á einn leikmaður í deildinni? Hann getur farið í báðar áttir, snýr til baka, hreyfir sig án bolta og aumingja [Kristófer] Breki [Gylfason]. Hann er í öllum þessum klippum,“ sagði Sigurður Orri Kristjánsson sem stýrði Subway Körfuboltakvöldi að þessu sinni.
Sævar Sævarsson er afar hrifinn af Everage og segir að enginn standist honum snúning þegar kemur að sóknargetu.
„Þetta er topp þrír leikmaður í deildinni og líklegi besti sóknarmaðurinn,“ sagði Sævar. „Þetta var rétt sem Óli [Ólafur Ólafsson] sagði í viðtalinu, þeir komust kannski í smá takt en þá kom hann og slökkti í öllu með oft fáránlegum skotum.“
Everage og félagar hans í Breiðabliki fara til Keflavíkur í kvöld og mæta þar deildarmeisturunum. Leikurinn hefst klukkan 20:15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.
Umræðuna um Everage og Breiðablik má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.