Innlent

Hætt að leita til HSS eftir það sem kom fyrir son hennar

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Haffý segir son sinn Alexander hafa verið einstaklega rólegan á meðan á öllu þessu stóð.
Haffý segir son sinn Alexander hafa verið einstaklega rólegan á meðan á öllu þessu stóð. aðsend

Móðir, sem segir son sinn hafa verið sendan heim frá Heil­brigðis­stofnun Suður­nesja með al­var­lega blæðingu eftir háls­kirtla­töku, er hætt að sækja heil­brigðis­þjónustu á svæðinu. Lífi drengsins var bjargað degi síðar með að­gerð eftir að hann fór að æla blóði. Við vörum við myndum sem fylgja fréttinni.

Í byrjun árs fór Alexander Freyr, fjögurra ára gamall strákur, í háls­kirtla­töku en tíu dögum síðar var ekki allt með feldu og var hann farinn að hósta blóði.

Það sama hafði gerst við eldri bróður hans eftir háls­kirtla­töku, sem varð þá að fara í að­gerð til að stöðva blæðinguna, og var móðir hans því fljót að leita með hann á Heil­brigðis­stofnun Suður­nesja.

Send heim og sagt að hafa engar áhyggjur

Hún segir lækninn þó hafa náð að skoða Alexander illa, sem hafi ekki viljað opna munninn fyrir hann.

Haffý með syni sína tvo.vísir/egill

„Og hann sagði þá bara að því það væri komið svo langt síðan, 10 dagar frá að­gerðinni, að þetta væri senni­lega bara lítill flipi sem hafi losnað og blætt í kjöl­farið og væri ekkert stór­vægi­legt og ég þyrfti ekki að hafa neinar á­hyggjur,“ segir Haffý Magnús­dóttir, móðir Alexanders.

Þau hafi því verið send aftur heim og læknirinn sagt að Alexander mætti meira að segja mæta í leik­skólann daginn eftir ef hann væri hress.

„Sama dag eftir leik­skóla um fimm­leytið að þá byrjar hann að æla blóði og komu hérna alla­vega þrjár stórar gusur í klósettið,“ segir Haffý.

Alexander fór að æla blóði daginn eftir að móðir hans leitaði með hann á HHS. aðsend

Segir litlu hafa munað

Hún hafi þá hringt beint á sjúkra­bíl. Á­standið á Alexander fór síðan versnandi í bílnum þar sem hann hélt á­fram að æla blóði og var farið að líða yfir hann, lík­lega vegna blóð­missis. Þegar annar sjúkra­flutninga­mannanna hafi séð það hafi hann beðið bíl­stjórann að gefa í.

Þau náðu svo í bæinn í tæka tíð þar sem Alexander var sendur beint í bráða­að­gerð þar sem brennt var fyrir sárið.

Alexander ældi miklu blóði á leiðinni í bæinn.aðsend

„Við náum því sem betur fer en það mátti senni­lega ekki miklu muna að það hefði endað á hinn veginn,“ segir Haffý. Læknirinn á Barnaspítalanum hafi varla trúað því að læknirinn hafi ekki sent Alexander beint í bæinn í aðgerð þegar hann hafi heyrt að hann væri að hósta blóði um nóttina.

Hún segir það al­talað í bænum hve lé­leg þjónustan sé á Heil­brigðis­stofnun Suður­nesja og sjálf getur hún ekki hugsað sér að leita þangað aftur.

„Nei, ég fer ekki, það hvarflar ekki að mér eftir þetta að fara með hvorki mig eða börnin mín til lækna hérna. Ég fer til Reykja­víkur,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×