Hermennirnir verða færðir um set og fluttir til annarra ríkja á Sahel-svæðinu svokallaða. Um er að ræða um 2.400 franska hermenn og nokkur hundruð hermenn annarra ríkja sem hafa tekið þátt í aðgerðum Frakka á svæðinu. Í heildina eru Frakkar með um fimm þúsund hermenn á Sahel-svæðinu, samkvæmt frétt BBC.
Í tilkynningu frá ríkisstjórn Emmanuels Macron, forseta Frakklands, og öðrum bandamönnum Frakka í Evrópu og Afríku, segir að ekki sé hægt að vera lengur með viðveru í Malí. Macron sjálfur sagði svo í kjölfarið, samkvæmt frétt France24, að það væri ekki hægt á meðan markmið herstjórnar Malí væru eins mikið á skjön við markmið Frakka og annarra.
Aukin umsvif málaliða í Malí
Frá því herinn tók við völdum í Malí hafa umsvif Rússa í ríkinu aukist og hafa málaliðar sem tilheyra Wagner Group verið sendir þangað. Málaliðahópurinn hefur lengi verið bendlaður beint við rússneska herinn en þeim tengslum hafa ráðamenn í Rússlandi neitað.
Bandaríkjamenn sögðu þó í síðasta mánuði að rússneski herinn væri að flytja málaliðana til Malí og veita þeim stuðning. Málaliðar Wagner Group hafa komið að átökum í ríkjum eins og Úkraínu, Sýrlandi, Líbýu og í öðrum ríkjum.
Sjá einnig: Rússneskur málaliði myndaði aðra pynta, myrða, afhöfða og brenna fanga
Frakkar hafa sakað herstjórn Malí um að nota málaliðana til að tryggja völd sín, undir því yfirskyni að þeir séu í Malí til að berjast við vígamenn.
Sagði brottflutninginn ekki uppgjöf
Macron þvertók fyrir að Frakkar væru að gefast upp í baráttunni gegn vígahópum í Vestur-Afríku og sagði að aðkoma Frakka að henni héldi áfram. Vísaði hann til þess að ríkisstjórn Níger hefði samþykkt að taka við hluta heraflans sem flytja á frá Malí.
Á undanförnum árum hafa 53 franskir hermenn fallið í Vestur-Afríku. Þar af féllu 48 í Malí.
Valdarán í Malí, Tjad og Búrkína Faso eru sögð hafa grafið undan samskiptum Frakka við þau ríki og gefið vígamönnum á Sahel-svæðinu byr undir báða vængi.
Sahel-svæðið svokallaða er þurrt svæði suður af Shara-eyðimörkinni. Vígamönnum hefur vaxið ásmegin í Sahel á undanförnum árum og hafa hryðjuverkasamtök eins og al-Qaeda og Íslamska ríkið skotið þar niður rótum.
Varnarmálaráðherra Þýskalands sagði í dag að hún teldi litlar líkur á því að um fimmtán hundruð hermenn Þýskalands í Malí yrðu þar áfram. Forsvarsmenn Sameinuðu þjóðanna hafa einnig sagt í dag að brottflutningur Frakka muni án efa hafa áhrif á viðveru friðargæsluliða í Malí.