Innlent

Ómar Stefánsson vill fjórða sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi

Eiður Þór Árnason skrifar
Ómari Stefánssyni hugnast ekki útfærsla Borgarlínu eins og hún er nú sett fram.
Ómari Stefánssyni hugnast ekki útfærsla Borgarlínu eins og hún er nú sett fram. Aðsend

Ómar Stefánsson hefur ákveðið að gefa kost á sér í 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi sem fer fram 12. mars.

Ómar var bæjarfulltrúi á árunum 2002 til 2014 og hefur meðal annars setið í byggingarnefnd, skipulagsnefnd, verið formaður og varaformaður bæjarráðs og var í framkvæmdaráði og hafnarstjórn. Einnig sat hann í stjórn Sorpu á árunum 2012 til 2014. Þetta kemur fram í framboðstilkynningu frá Ómari. 

„Af þeim verkum sem Ómar er hvað stoltastur af frá þessum tíma er kraftmikil uppbygging bæjarins þar sem byggðir voru 5 nýir leikskólar á þessum árum og 2 grunnskólar. Einnig má nefna uppbyggingu íþróttamannvirkja m.a. Kórinn, Fagrilundur og ný stúka við Kópavogsvöll. Bætt aðstaða íþróttafélaga og almennings til íþróttaiðkana s.s. Salalaug og innisundlaug við Kópavogslaug. Aðbúnaður aldraðra var bættur með tilkomu Boðaþings, aukinnar heimaþjónustu og fjárstyrks til hjúkrunarheimilisins Sunnuhlíðar,“ segir í tilkynningunni.

„Ómar vill sjá meiri varkárni í fjármálum bæjarins og aðhald í rekstri. Hann vill ljúka við Vatnsendamálið, hugnast ekki útfærsla Borgarlínu eins og hún er nú sett fram. Auka þarf þjónustu við barnafjölskyldur. Byggja þarf nýjan leikskóla, en nýr leikskóli hefur ekki verið byggður í Kópavogi í 8 ár. Heimsmarkmiðavísitölu Kópavogsbæjar er hægt að nýta betur við rekstur bæjarins og þjónustu við íbúa. Jafnframt þarf að leggja mikla áherslu á að leita sátta þegar farið er í þéttingar verkefni í grónum hverfum. Allar frekari upplýsingar er að finna á omarstef.net“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×