Handbolti

Níu Íslensk mörk í enn einum sigri Magdeburg | Elvar átti stórleik fyrir Melsungen

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon skilaði sínum fimm mörkum og þrem stoðsendingum í kvöld.
Ómar Ingi Magnússon skilaði sínum fimm mörkum og þrem stoðsendingum í kvöld. Peter Niedung/NurPhoto via Getty Images

Gísli Þorgeir Kristjánsson, Ómar Ingi Magnússon og félagar þeirra í Magdeburg halda áfram á sigurbruat í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta, en liðið vann öruggan 11 marka sigur gegn Göppingen í kvöld. Þá átti Elvar Örn Jónsson stórleik í fjögurra marka sigri Melsungen gegn Minden á sama tíma.

Gestirnir í Göppingen skoruðu fyrsta mark leiksins gegn Magdeburg, en það var í eina skiptið sem liðið hafði forystuna. Heimamenn í Magdeburg tóku þá öll völd á vellinum og voru ekki lengi að ná sér í fimm marka forystu. Liðið hélt áfram að þjarma að gestunum og fór að lokum með 11 marka forskot inn í hálfleikinn, staðan 20-9.

Heimamenn gátu því leyft sér að slaka aðeins á í síðari hálfleik. Þrátt fyrir það hleyptu þeir gestunum aldrei nálægt sér og unnu að lokum öruggan 11 marka sigur, 37-26.

Ómar Ingi Magnússon átti sem fyrr flottan leik í liði Magdeburg og skoraði fimm mörk. Gísli þorgeir Kristjánsson fylgdi fast á hæla honum með fjögur mörk, en Janus Daði Smárason gat ekki leikið með Göppingen í kvöld.

Magdeburg situr sem fyrr á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar með 38 stig eftir 20 leiki, 15 stigum meira en Göppingen sem situr í sjöunda sæti.

Þá átti Elvar Örn Jónsson stóran þátt í fjögurra marka sigri Melsungen gegn botnliði Minden, 26-22. Elvar Örn skoraði fimm mörk og gaf aðrar fimm stoðsendingar á liðsfélaga sína.

Arnar Freyr Arnarsson komst ekki á blað fyrir Melsungen í kvöld, en liðið situr í sjötta sæti deildarinnar með 24 stig eftir 20 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×