Handbolti

„Hann heitir Ómar Ingi Magnússon“

Sindri Sverrisson skrifar
Ómar Ingi Magnússon heldur áfram að fara á kostum líkt og í allan vetur, ekki síst á Evrópumótinu í Ungverjalandi og Slóvakíu í janúar.
Ómar Ingi Magnússon heldur áfram að fara á kostum líkt og í allan vetur, ekki síst á Evrópumótinu í Ungverjalandi og Slóvakíu í janúar. Getty/Nikola Krstic

Þó að Evrópumótinu sé lokið þá heldur Ómar Ingi Magnússon áfram að fara á kostum á handboltavellinum.

Danski handboltasérfræðingurinn Bent Nyegaard er meðal margra sem deilt hafa myndbandi af hreint ótrúlegri stoðsendingu Ómars Inga í leik í þýsku 1. deildinni í gær.

Sendinguna má sjá hér að neðan en Ómar náði einhvern veginn, þó að honum væri haldið af varnarmanni, að sjá lausan mann lengst úti í horni og grýta boltanum til hans, svo að úr varð mark.

„Hann heitir Ómar Ingi Magnússon,“ skrifar Nyegaard einfaldlega með myndbandinu en eftir EM ættu flestir að vera búnir að læra nafnið.

Ómar skoraði fimm mörk og átti að minnsta kosti þrjár stoðsendingar í gær, í 37-26 sigri Magdeburg á Göppingen.

Magdeburg hefur unnið 19 af 20 leikjum sínum og er með sex stiga forskot á Kiel á toppi þýsku deildarinnar, sem er sterkasta félagsliðadeild heims.

Ómar er þriðji markahæstur í deildinni með 121 mark, sex mörkum á eftir Niclas Ekberg sem er efstur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×