Skoðun

Fram­tíðin bíður ekki eftir Sjálf­stæðis­flokknum

Birta Karen Tryggvadóttir skrifar

Þann 23. – 25. febrúar næstkomandi fer fram aðalfundur Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík. Þar verður kosið milli tveggja framboða. Undirrituð leiðir annan listann en samhliða gefa ellefu einstaklingar sig fram til stjórnarsetu í Heimdalli og sex til varastjórnarsetu. Framboðið samanstendur af frambærilegu ungu fólki sem vill vinna í þágu flokksins. Árið 2017 var síðast kosið milli tveggja framboða í Heimdalli og kosningarnar því, að mínu mati, löngu tímabærar. Það er í raun hollustumerki að fleiri en eitt framboð bjóði sig fram til stjórnarsetu í ungliðahreyfingu.

Frelsismál skilin eftir

Á núlíðandi kjörtímabili og því fyrra hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið í ríkisstjórnarsamstarfi með flokkum sem hafa aðra sýn á samfélagið en hann sjálfur. Í umræddu samstarfi hefur flokkurinn þurft að víkja frá ýmsum grunnfrelsismálum, sem er miður. Afglæpavæðing neysluskammta, frjálsara fjölmiðlaumhverfi, niðurgreiðsla á sálfræðiþjónustu, aukið frelsi foreldra til að velja nafn á börnin sín og afnám einokunar ÁTVR á áfengissölu eru meðal þeirra mála sem að við hefðum viljað sjá Sjálfstæðisflokkinn leggja meiri áherslu á. Við munum halda þessum mikilvægu málum á lofti og skorum á flokkinn að standa með þeim. Auðvelt er að skilja þessi litlu frelsismál eftir og stimpla þau sem „ekki forgangsmál“ en þó svo að mál séu lítil í hinu stóra samhengi er það ekki ástæða til að skilja þau eftir.

Flokkur unga fólksins

Mikilvæg verkefni eru framundan hjá Heimdalli á komandi starfsári. Sveitarstjórnarkosningar eru framundan en í þeim felast miklar áskoranir en þó ekki síður tækifæri – tækifæri til að sannfæra ungt fólk um gildi Sjálfstæðisstefnunnar. Heimdallur er þó ekki síður mikilvægur til að veita kjörnum fulltrúum aðhald með því að minna flokkinn á grunngildi sín þegar þeir eru komnir af sporinu. Við erum óhrædd við að stíga fram og minna flokkinn á þessi grunngildi.

Ljóst er að Sjálfstæðisflokkurinn treystir ungu fólki og hefur sýnt það í verki, til að mynda með því að skipa tvo yngstu ráðherra í sögu íslenska lýðveldisins. Auk þess er vert að nefna að þeir tveir frambjóðendur sem hafa gefið kost á sér í fyrsta sæti flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor teljast ungir sjálfstæðismenn – enda falla allir flokksmenn þar undir sem eru á aldursbilinu 15 til 35 ára. Á fyrri árum dró ungt fólk vagninn í fylgi flokksins en það er ekki raunin lengur. Við þurfum að sýna að Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur unga fólksins. Grunnstef flokksins um frelsi einstaklingsins til athafna á samleið með skoðunum ungs fólks en þrátt fyrir það er raunin sú að ungt fólk telur sig ekki eiga samleið með flokknum. Því er ljóst að Sjálfstæðisflokknum er mikill vandi á höndum því án ungs fólks á flokkurinn enga framtíð.

Hugsjónir ungs fólks eru hugsjónir framtíðarinnar, hugsjónir sem flokkurinn hefur horft framhjá og ekki hlustað nægilega vel á. Því þarf öfluga ungliðahreyfingu til að minna flokkinn á að svara kalli framtíðarinnar – því framtíðin bíður ekki eftir Sjálfstæðisflokknum. Við bjóðum því fram okkar krafta til að leiða ungliðastarf Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Öll búsett í Reykjavík á aldrinum 15 – 35 ára sem eru skráð í flokkinn geta kosið – hægt er að skrá sig með rafrænum skilríkjum, hér: https://xd.is/minar-sidur/. Kosið verður í Valhöll (Háaleitisbraut 1) milli kl 16 – 20 á fimmtudag og 16 – 19 á föstudag. Ég skora á þig, kæri lesandi, að taka þátt!

Höfundur leiðir lista Birtu Karenar og Kára Freys í framboði til stjórnarsetu í Heimdalli, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×