Sport

Mun ekki sakna neins frá þessum Ólympíuleikum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dorothea Wierer með bronsið sem hún vann á Vetrarólympíuleikunum í Peking.
Dorothea Wierer með bronsið sem hún vann á Vetrarólympíuleikunum í Peking. AP/Gregory Bull

Keppnisfólkið á Vetrarólympíuleikunum er nú á heimleið og það er ljós á viðtölum við þá flesta að þau eru guðslifandi fegin að komast úr prísundinni sem leikarnir virðast hafa verið.

Strangar sóttvarnarreglur, ekkert ferðafrelsi, takmarkað aðgengi af netinu, slæmur matur og óvissa vegna kórónuveiruprófa gerði lífið þessar vikur allt annað en skemmtilegt fyrir keppendur.

Ítalska skíðaskotfimistjarnan Dorothea Wierer fór ekkert í felur með það hversu gott það verður að komast heim. Hún segist ekki muni sakna neins frá leikunum.

„Það var kalt og mikill vindur líka. Þetta var ekki besti snjórinn. Þetta var ekki besti staðurinn til að halda Ólympíuleika en það voru allir í sömu stöðu,“ sagði Dorothea Wierer við Aftonbladet.

„Ég held að allir séu glaðir með að komast heim af þessum Ólympíuleikum,“ sagði Wierer. Hún getur líka glaðst yfir því að fara með verðlaun heim til Ítalíu þar sem hún vann brons í sprettgöngunni.

„Ég var með meiri væntingar til þessara leika. Ég hef aldrei upplifað svona kulda í keppni. Það hentar mér alls ekki,“ sagði Wierer en þegar hún var spurð hvort hún muni sakna einhvers frá leikunum í Peking var svar hennar einfalt og mjög skýrt.

„Nei, ekki neitt,“ sagði hin 31 árs gamla Dorothea Wierer sem var að keppa á sínum þriðju Vetrarólympíuleikum. Hún vann líka bronsverðlaun á leikunum í Sochi árið 2014 og í Pyeongchang árið 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×