Systurnar Ásdís Þóra og Lilja Ágústsdætur leika með Lugi sem er í 7. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar. Ásdís Þóra kom til Lugi í sumar en Lilja í byrjun þessa mánaðar. Þær komu báðar frá Val.
Gulldén hefur skrifað undir þriggja ára samning við Lugi og kemur til liðsins frá Evrópumeisturum Vipers Kristiansand í Noregi eftir tímabilið.
Í viðtali við Aftonbladet greinir Gulldén frá því að hún hafi ákveðið að flytja aftur heim til Svíþjóðar til að geta verið nær yngri systur sinni sem greindist með leghálskrabbamein í byrjun nóvember á síðasta ári. Rebecca Gulldén, sem er tveimur árum yngri en Isabelle, býr í Lundi þar sem Lugi er staðsett.
„Þetta er ágengt og hefur dreift sér. Þú veist aldrei hvernig hlutirnir fara. Hún hefur svarað meðferðinni vel hingað til og vonandi heldur það áfram. En þú veist aldrei. Þetta er þungt. Handboltinn skiptir svo litlu máli í svona stöðu,“ sagði Gulldén.
Hún hefur um langt árabil verið einn besti leikmaður heims og unnið fjölda titla með félagsliðum sínum, meðal annars Meistaradeild Evrópu með rúmenska liðinu CSM Bucuresti 2016. Þá hefur hún orðið landsmeistari í Svíþjóð, Danmörku, Rúmeníu og Frakklandi.
Hin 32 ára Gulldén lagði landsliðskóna á hilluna eftir EM 2020. Hún var í sænska liðinu sem lenti í 2. sæti á EM 2010 og 3. sæti 2014. Hún var valin besti leikmaður EM 2014 og var markahæst á mótinu.
Gulldén yfirgaf Sävehof 2011 og hefur ekki leikið í Svíþjóð síðan. Hún snýr því aftur til heimalandsins í sumar eftir ellefu ára fjarveru. Gulldén lék með Viborg í Danmörku á árunum 2011-15, CSM Bucuresti 2015-18, Brest í Frakklandi 2018-21 og hefur verið hjá Vipers Kristiansand síðan í sumar.