Enski boltinn

„Þó hann sé einfættur þá verður hann að spila“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Antonio Conte lagði mikla áherslu á það hversu mikilvægur Harry Kane er fyrir Tottenham.
Antonio Conte lagði mikla áherslu á það hversu mikilvægur Harry Kane er fyrir Tottenham. Ryan Pierse/Getty Images

Antonio Conte, knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur, sagði frá því í dag að Harry Kane geti tekið þátt í leik liðsins gegn Burnley í ensku úrvalsdeildinni á morgun og að hann myndi velja framhjerann í liðið þó að hann væri einfættur.

Kane lenti í smá hnjaski í fræknum 3-2 sigri Tottenham gegn Englandsmeisturum Manchester City um helgina þar sem hann virtist finna til í bakinu. Það voru því einhverjir sem óttuðust það að framherjinn yrði frá í næstu leikjum, en Conte hefur nú sagt frá því að svo verði ekki.

„Harry [Kane] fékk smá högg á bakið en hann verður að spila. Jafnvel þó hann sé einfættur þá verður hann að spila,“ sagði Conte.

„Hann er góður núna og hann veit hversu mikilvægur hann er fyrir liðið. Hann er mikill persónuleiki sem færir okkur mikla reynslu.“

Conte tók það þó einnig fram að hann neyðir engann til að spila ef þeir eru að glíma við meiðsli.

„Ég er að grínast. Ég neyði engann til að spila ef hann er meiddur. Ég segi þetta bara til að leggja áherslu á hversu mikilvægur hann er fyrir okkur. Hann er góður og hann er tilbúinn,“ sagði Conte að lokum.

Tottenham heimsækir Burnley annað kvöld klukkan 19:30 í mikilvægum leik fyrir bæði lið. Sigur lyftir Tottenham upp að hlið Arsenal og West Ham í fimmta til sjöunda sæti deildarinnar, en baráttan um Meistaradeildarsæti er hörð.

Jóhann Berg Guðmundsson verður ekki með Burnley á morgun vegna meiðsla, en liðið þarf svo sannarlega á stigum að halda í fallbaráttunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×