Félag deildardómara hefur sent frá sér ályktun í aðdraganda ársþingsins og gagnrýna að Vanda Sigurgeirsdóttir og Sævar Pétursson, sem ein berjast um formannssætið á þinginu, skuli ekki hafa skýrt betur sína sýn á störf „fjölmennasta starfsmannahóps KSÍ“
Í ályktuninni er bent á að störf dómara séu sífellt meira gagnrýnd á opinberum vettvangi, og þar segir að forystumenn og sumir frambjóðendur til stjórnar og formennsku KSÍ hafi ekki dregið af sér í þessari gagnrýni í gegnum tíðina.
Ályktun stjórnar FDD:
Stjórn Félags deildardómara (FDD) fagnar þeirri miklu umræðu sem skapast hefur um stöðu og framtíð íslenskrar knattspyrnu í aðdraganda ársþings KSÍ. Mikilvægt er að fram fari opin og frjó umræða um allar hliðar íslenskrar knattspyrnu.
Það er þess vegna sem stjórn FDD saknar umræðu um dómaramál, einn af undirstöðumálaflokkum leiksins. Hvorki frambjóðendur til formanns né aðrir frambjóðendur til stjórnar hafa sýnt á spilin hvert skuli stefna í þessum málaflokki.
Dómarar eru fjölmennasti starfsmannahópurinn innan KSÍ og óumdeilt að án dómara er engin leikur. Þessi þögn er undarleg, sér í lagi ef horft er til þess að störf dómara eru meira og meira gagnrýnd á opinberum vettvangi. Forystumenn og sumir frambjóðendur til stjórnar og formennsku KSÍ hafa ekki dregið af sér í þessari gagnrýni gegnum tíðina.
Því hvetur stjórn FDD frambjóðendur til formanns og stjórnar KSÍ að koma fram með sína sýn á framtíð dómgæslu og dómaramála innan KSÍ, knattspyrnunni til heilla.
Stjórn Félags deildardómara
Bryngeir Valdimarsson
Gunnar Helgason
Egill Arnar Sigurþórsson