Innlent

Verk­efni flutt frá Þjóð­­skrá Ís­lands í upp­stokkun inn­viða­ráðu­neytisins

Smári Jökull Jónsson skrifar
Forstjóri Þjóðskrár Íslands segist sjá tækifæri í breytingunum.
Forstjóri Þjóðskrár Íslands segist sjá tækifæri í breytingunum. Vísir/Vilhelm

Verkefni tengd fasteignaskrá- og fasteignamati verða flutt frá Þjóðskrá Íslands og yfir til húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Breytingarnar voru kynntar í dag.

Að sögn Sigurðar Inga Jóhannssonar, innviðaráðherra, er með þessu stigið stórt skref til að samhæfa og einfalda þjónustu á vegum hins opinbera.

„Við viljum stöðugt bæta þjónustu við samfélagið og með því að færa fasteignaskrána til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar getur fólk nú leitað á einn stað með erindi tengd fasteignum og húsnæðismálum.“

Hann segir tilganginn að auka yfirsýn til að gera stjórnvöldum kleift að gera markvissari aðgerðir til að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði.

„Þjóðskrá Íslands gegnir mikilvægu hlutverki eftir breytingarnar og þar starfar öflugt fagfólk, sem mun taka þátt í að efla enn frekar þjónustu á vegum stofnunarinnar,“ bætir Sigurður Ingi við.

Engar uppsagnir

Engar uppsagnir verða í tengslum við þessi umskipti og starfsstöðvar utan höfuðborgarsvæðisins áfram starfræktar. Um 100 manns starfa hjá Þjóðskrá Íslands og tæpur helmingur þeirra vinnur að verkefnum tengdum fasteignasviði.

Hermann Jónasson, starfandi forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, segist hlakka til samstarfsins við Þjóðskrá.

„Verkefni okkar verður að samþætta verkefni, einfalda þjónustuferla og veita afbragðs þjónustu til allra þeirra sem til okkar leita. Í þessum breytingum eru skýr sóknarfæri til að bæta þjónustu á þessu mikilvæga sviði,“ segir Hermann ennfremur í tilkynningu sem birtist á vef Stjórnarráðsins.

Auk verkefna tengdum fasteignaskrá, fasteignamat og útreikningi á álagningu sveitarfélaga færaast einnig yfir ýmis verkefni á stoðþjónustusviðum Þjóðskrár yfir til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×