Handbolti

Harri ætlaði að hætta í sumar en var rekinn

Sindri Sverrisson skrifar
Halldór Harri Kristjánsson starfaði fyrir HK í fjögur ár.
Halldór Harri Kristjánsson starfaði fyrir HK í fjögur ár. Vísir/Bára Dröfn

Eftir að hafa sagt frá því í viðtali í byrjun vikunnar að hann myndi hætta sem þjálfari kvennaliðs HK í handbolta í sumar hefur Halldór Harri Kristjánsson nú verið rekinn frá félaginu.

Harri, eins og hann er kallaður, sagði við Handbolti.is á mánudag að hann hefði ákveðið að nýta uppsagnarákvæði í samningi sínum og hætta þjálfun HK eftir tímabilið, til að taka sér frí frá þjálfun.

Nú er hins vegar orðið ljóst að Harri hættir þegar í stað því HK sendi frá sér yfirlýsingu þess efnis.

„Stjórn handknattleiksdeildar HK hefur ákveðið að ljúka samstarfi sínu við Halldór Harra Kristjánsson og hefur hann látið af störfum sem þjálfari kvennaliðs HK.

Harri hafði ákveðið að láta staðar numið að loknu tímabilinu en það var einhugur hjá stjórn að breytinga væri þörf á þessum tímapunkti.

HK vill þakka Harra kærlega fyrir vel unnin störf á þeim 4 árum sem hann hefur starfað fyrir félagið,“ segir í yfirlýsingu HK.

Síðasti leikur HK undir stjórn Harra var því á miðvikudag þegar liðið tapaði 31-27 á heimavelli gegn KA/Þór. Liðið er í næstneðsta sæti Olís-deildarinnar með níu stig eftir fimmtán leiki, fimm stigum á eftir næstu liðum en í öruggri fjarlægð frá stigalausu liði Aftureldingar sem er neðst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×