Enski boltinn

Bielsa rekinn frá Leeds

Atli Arason skrifar
Bielsa á hliðarlínunni.
Bielsa á hliðarlínunni. vísir/Getty

Leeds United staðfesti rétt í þessu að Marcelo Bielsa hafi verið rekinn úr stöðu knattspyrnustjóra liðsins.

Hinn 66 ára Bielsa hefur verið stjóri Leeds í tæp fjögur ár en hann tók við stjórn Leeds í júní 2018.

Á fyrsta tímabili Bielsa með Leeds fór liðið alla leið í umspil um laust sæti í úrvalsdeildinni en tókst ekki að komast upp. Liðið komst hins vegar beint upp í úrvalsdeildina með því að vinna ensku B deildina á öðru tímabili Bielsa með Leeds.

Leeds náði frábærum árangri á sínu fyrsta tímabili í efstu deild í 16 ár í fyrra þegar liðið endaði í níunda sæti, sem er besti árangur nýliða í úrvalsdeildinni á þessari öld.

Leeds hefur ekki gengið vel á þessu tímabili en ekkert lið hefur fengið fleiri mörk á sig til þessa í deildinni en liðið varð það fyrsta til að fá 20 mörk á sig í einum og sama mánuðinum eftir 4-0 tapið gegn Tottenham í gær.

  „Þessi ákvörðun hefur verið sú erfiðasta sem ég hef tekið á mínum tíma hjá Leeds United, með allan þann frábæra árangur sem Marcelo hefur náð hjá félaginu í huga,“ sagði Andrea Radrizzani, eigandi Leeds, í tilkynningu sem var að berast frá félaginu.

„Hins vegar, með hagsmuni félagsins í huga þá tel ég að þörf er á breytingu núna til þess að tryggja stöðu okkur í úrvalsdeildinni. Úrslitin og frammistaðan undanfarið hefur ekki mætt okkar kröfum.“

„Við viljum þakka Marcelo fyrir alla hans vinnu og árangur með liðinu. Við óskum honum alls hins besta í framtíðinni.“

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×