Peskov sló þar á svipaða strengi og Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, sem sagði skömmu áður að Rússar myndu ekki hætta fyrr en markmiðum þeirra væri náð.
Þau markmið eru, samkvæmt Rússum, að gera Úkraínu að herlausu og hlutlausu landi og að „frelsa“ íbúa Úkraínu undan oki ríkisstjórnar landsins sem Pútín kallaði nýverið útúrdópaða ný-nasista.
Peskov neitaði að segja hvernig það gengi hjá Rússum, samkvæmt frétt Reuters, og þvertók hann sömuleiðis fyrir það að Rússar hefðu gert loftárásir á almenna borgara, meðal annars með klasasprengjum. Það sagði Peskov að væru falsaðar ásakanir.
Possible use of cluster munitions in Kharkiv. There was a video posted earlier that showed a Smerch MLRS rocket booster landing in Kharkiv, which can carry cluster munitions. https://t.co/fitcfyuNDr pic.twitter.com/Xd9XubbhuL
— Rob Lee (@RALee85) February 28, 2022
Peskov segir að Pútín hafi verið upplýstur um það sem fram kom á fyrsta fundi sendinefnda Úkraínu og Rússlands, sem fór fram á landamærunum Úkraínu og Hvíta-Rússlands í gær. Of snemmt væri þó að segja til um hver niðurstaða fundarins hafi verið. Þá liggi engar áætlanir fyrir um að Pútín fundi með úkraínska forsetanum Vólódímír Selenskí en Peskov bætti þó við að yfirvöld í Moskvu líti enn á Selenskí sem leiðtoga Úkraínu.
Selenskí gæti þá komið í veg fyrir frekara mannfall með því að fyrirskipa mönnum sínum að leggja niður vopn. Úkraínsk yfirvöld hafa lýst því yfir að hundruð almennra borgara hafi fallið í átökunum. Sameinuðu þjóðirnar segja að minnst 136 almennir borgarar hafi fallið en leiða má að því líkur að talan sé hærri. Rússar sakað Úkraínumenn um að nota almenna borgara sem mannlega skyldi.
Selenskí hefur lýst því yfir að það komi ekki til greina og mótmælt rússneskum falsfréttum um að hann hafi fyrirskipað uppgjöf um helgina. Úkraínski herinn hefur veitt þeim rússneska mikið viðnám, mun meira en margir gerðu ráð fyrir.