Innlent

Sigríður snýr aftur í Efstaleiti

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Segja má að Sigríður Halldórsdóttir sé komin heim.
Segja má að Sigríður Halldórsdóttir sé komin heim.

Sigríður Halldórsdóttir hefur verið ráðin til starfa á RÚV. Hún starfaði síðast fyrir Ríkisútvarpið árið 2019 í fréttaskýringaþættinum Kveik.

Sigríður var árið 2019 ráðin aðstoðarmaður Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra. Nú er Guðmundur Ingi orðinn félags- og vinnumarkaðsráðherra og ljóst að Sigríður fylgir honum ekki í það ráðuneyti.

Sigríður er með BA-próf í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði frá Háskólanum á Bifröst og meistaragráðu í alþjóðasamskiptum frá IBEI, Institut Barcelona d’Estudis Internacionals, í Barcelona á Spáni.

Sigríður vann á tíu ára tímabili við fréttir, fréttaskýringar og dagskrárgerð á RÚV. Hún hefur meðal annars unnið við fréttaskýringaþáttinn Kveik, verið umsjónarmaður í Landanum og samið og séð um sjónvarpsþættina Ævi og Rætur. 

Sigríður hefur fjórum sinnum hlotið Eddu-verðlaun ásamt félögum sínum fyrir sjónvarpsþáttagerð og fyrr á árinu var hún valin Sjónvarpsmaður ársins á Eddunni. Árið 2018 var Sigríður auk þess tilnefnd til Blaðamannaverðlaunanna fyrir umfjöllun um plastmengun.

Sigríður mun sinna almennri dagskrárgerð í sjónvarpi en einnig mun hún ganga til liðs við Morgunvaktina á Rás 1.

„Ég er bæði spennt og glöð að snúa aftur á RÚV. Ég hlakka til að takast á við ný verkefni, innan um gamla og nýja félaga,“ segir Sigríður í tilkynningu frá RÚV.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×