Það hefur verið deilt um lóðir við Vesturbæjarlaugina árum og áratugum saman. En nú eru borgaryfirvöld komin með sannkallaða töfralausn. Það á sem sagt að gera hvort tveggja, stækka einkalóðirnar hér og stækka almenningslóðirnar hér.
En hvernig má það vera? Það er útskýrt til hlítar í myndbrotinu hér að ofan.
Gæði í að ná samkomulagi
Lausn borgarinnar, sem sjá má í nýrri tillögu að deiliskipulagi á svæðinu, felst í að lengja lagaleg lóðamörk íbúanna um þrjá metra inn á túnið, en taka í staðinn í rauninni af þeim eiginlega allt svæðið sem það hefur haft í fóstri undanfarna áratugi.
Íbúum í Vesturbæjarhópnum finnst mörgum að borgin hefði átt að taka alla til baka - án þess að lengja jarðir fólksins aðeins á móti.
Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, segir: „Við höfum litið svo á að þetta sé borgarland, þannig að samkomulagið snýst um að þetta hopi næstum því að lóðamörkunum sem við töldum vera og þau hafi þá heimild til að setja upp nýtt grindverk á hinum nýju lóðamörkum.“

Ef breytingarnar ganga svona í gegn verða nýju mörkin við röngu megin við trampólínið í einum garðinum. Það verður sem sagt ekki lengur pláss fyrir það í nýjum garði.
„Þótt það gætu verið umdeildir partar í þessu er ég ánægður með að við séum að fá rosalega stóran hluta af þessu túni í reynd til baka, getum skipulagt það og gert stóra hluti hér. Ég skil alveg áhyggjur þeirra sem segja að það hefði verið nærtækara að ganga bara alla leið. En eins og ég segi eru ákveðin gæði í að ná samkomulagi og geta þá ráðist í verkefnið strax,“ segir Pawel í samtali við fréttastofu.
